Samdrátturinn mestur á Suðvesturlandi

Hagstofa Íslands

Heildarfjöldi skráðra gistinátta ferðamanna á Íslandi var um 3,3 milljónir árið 2020 en þær voru um 8,4 milljónir árið 2019. Gistinóttum fækkaði um 70,4% á milli ára á höfuðborgarsvæðinu og um 69,9% á Suðurnesjum en minna á landsbyggðinni. Til dæmis fækkaði gistinóttum á milli ára um 29,9% á Vestfjörðum og 33,9% á Austfjörðum. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands. 

Heildarfjöldi gistinátta árið 2020 dróst því saman um 60,8% á milli ára. Þar af var 65,1% fækkun á hótelum og gistiheimilum, 61,6% samdráttur var í annarri innigistingu og 31,5% samdráttur á tjaldsvæðum.

Aukning á tjaldstæðum á Austurlandi

Mikill samdráttur varð í öllum landshlutum og gistitegundum nema á tjaldsvæðum á Austurlandi. Þar voru gistinætur 88.800 árið 2019 en 98.500 árið 2020 og er það aukning um 10,9%.

Þar sem kórónuveirufaraldurinn leiddi til skertra millilandasamgangna var óvenjustór hluti gistinátta vegna innlendra ferðamanna eða um 44,5%. Innlendar gistinætur voru um 1,5 milljónir sem er aukning um 34,7% frá fyrra ári en erlendar gistinætur drógust saman um 75% og voru um 1,8 milljónir.

Samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins var sett á um miðjan mars 2020 og sjást áhrif faraldursins vel þegar gistinætur eru skoðaðar niður á mánuði. Janúar og febrúar voru í svipuðum takti og tímabilið á undan en í mars varð 54,6% samdráttur. Í framhaldinu varð mikill samdráttur í gistinóttum útlendra ferðamanna, um 70-75% yfir hásumarið en 90-97% þar fyrir utan. Íslenskum gistinóttum fjölgaði aftur á móti á milli ára og skýrist það af aukningu sem varð á tímabilinu júní til september.

Á fyrstu þremur mánuðum 2020 (janúar-mars) voru gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu sem miðlað var í gegnum vefsíður á borð við Airbnb um 175.000 sem var um 51% minna en á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 þegar þær voru um 356.000. Tölur um fjölda erlendra gistinátta á gististöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður eru áætlaðar út frá svörum í landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands.

Skyndileg fækkun á brottförum frá landinu er leið á marsmánuð olli því að ómögulegt reyndist að halda uppi svörun í landamærarannsókn og var hún tímabundið lögð niður í sumarlok með það fyrir augum að taka hana upp á ný þegar aðstæður færu batnandi. Af þessum orsökum eru áætlaðar gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu, sem miðlað var gegnum deilisíður á borð við Airbnb, ekki taldar með í ofangreindum heildarfjölda skráðra gistinátta ferðamanna. Samkvæmt sömu áætlun voru gistinætur erlendra ferðamanna á fyrstu þremur mánuðum ársins tæplega 2.500 í bifreiðum utan tjaldsvæða og um 32.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu, segir enn fremur í tilraunahagfræði Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert