Nátthagi gæti fyllst á þremur mánuðum

Nátthagi fyllist nú hægt og rólega af hrauni.
Nátthagi fyllist nú hægt og rólega af hrauni. Ljósmynd/Elvar Ólafsson

Hraun sem nú rennur um Nátthaga gæti fyllt upp í dalinn á þremur mánuðum haldi eldgosið áfram, segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Aðfaranótt laugardags rann hraun yfir eystri varnargarðinn á Fagradalsfjalli en hann er annar þeirra tveggja varnargarða sem reistir voru í því skyni að seinka því að hraun rynni í Nátt­haga og næði þannig seinna að ljós­leiðara sem þar ligg­ur og hring­teng­ir Reykja­nes, og að Suður­strand­ar­vegi. 

Ekki er útilokað að hraunið sem nú rennur í Nátthaga fylli dalinn að lokum. Það gæti þó tekið dágóðan tíma og ræðst sá tími annars vegar af stærð dalsins og hins vegar halla hraunsins, að sögn Magnúsar. 

„Fyrsta mat sem byggist á því hvað Nátthagi er stór og svo þeim halla sem er á hrauninu annars staðar, er að þetta verði um þrír mánuðir. Verið er að vinna með straumflæðilíkur en þær eru á ákveðnu tilraunastigi ennþá,“ segir Magnús.

Landslagið virki eins og kælingarkerfi á hraunið

Aðspurður hve langan tíma það tæki fyrir hraunið svo að leka út úr Nátthaga segir Magnús það fara eftir hegðun hraunsins. Líklegt sé þó að hraunið þurfi að hafa töluvert fyrir því að komast út úr dalnum.

„Ef það hegðar sér eins og það hefur verið að gera þá tekur það dálítinn tíma. Við höfum verið að kortleggja hraunið einu sinni í viku og það virðist vera að hegða sér á svipaðan hátt og í Meradölum. Það er ekki að fara mjög langar vegalengdir, það safnast upp um einn metra á dag og þarf að ná ákveðnum halla til að komast áfram. Því umfangsmeira sem hraunið verður því seigara verður það og þá má búast við því að það þykkni minna eða um hálfan metra á dag,“ segir Magnús. 

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands. Ljósmynd/Almannavarnir

„Þetta er ekki stöðugt. Það koma tímabil þar sem það safnast upp og svo koma tímabil þar sem það er kyrrt, því hraunið er að renna annað. Eftir því sem meira flæðir undir yfirborðinu og brattinn í Nátthaganum minnkar geta skapast forsendur til þess að hraunið fari að leita út úr dalnum. Það má segja að þetta landslag virki eins og kælingarkerfi á hraunið. Það fer niður hlíðar og hitinn á því lækkar því meira sem það dreifist. Þá verður hraunið seigara og safnast frekar upp,“ bætir hann við. 

Magnús segir viðbragðsaðila hafa dálítinn tíma til að ákveða næstu skref og að nýr varnargarður neðan við Nátthaga gæti keypt mönnum tíma. Það fari þó allt eftir því hve hár hann verður.

„Ef hann er er tíu metra hár og hraunið þykknar um hálfan metra á dag, þá eru þetta tuttugu dagar,“ segir Magnús um það hve langan tíma það tæki hraunið að flæða yfir mögulegan varnargarð.

mbl.is