Stefna á að 10% allra ferða verði á hjóli

Tillögur að hjólreiðaáætlun fyrir 2021-2025 voru samþykktar í skipulags- og …
Tillögur að hjólreiðaáætlun fyrir 2021-2025 voru samþykktar í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur í dag. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Stefnt er að því að 10% allra ferða í Reykjavík verði farnar á hjóli árið 2025 og að hjólastígar verði þá orðnir í það minnsta 50 kílómetrar og 100 kílómetrar árið 2030. Þá á að fjölga hjólastæðum við grunnskóla umtalsvert og bæta vetrarþjónustu þannig að stærra hlutfall stíga verði greiðfært strax klukkan 8 á morgnana. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tillögum að nýrri hjólreiðaáætlun Reykjavíkur fyrir árin 2021-2025, sem samþykkt var í skipulags- og samgönguráði í dag.

Í tillögunum er lagt til að fjárfestingar í nýjum hjólreiðainnviðum í Reykjavík verði að lágmarki fimm milljarðar á tímabilinu, eða einn milljarður á ári.

25% ferða grunnskólanema á hjóli

Þegar kemur að aukinni hlutdeild hjólreiða í heildarfjölda ferða íbúa eru sett fram nokkur markmið til ársins 2025, en þau eru meðal annars:

  • Að minnsta kosti 10% allra ferða í borginni verði farnar á hjóli.
  • Ferðir farnar í vinnu á hjóli verði að minnsta kosti 10%.
  • Að minnsta kosti 25% ferða grunnskólanema í skólann verði farnar á hjóli.
  • Að minnsta kosti 10% ferða framhaldsskólanema í skólann verið farnar á hjóli.
Gert er ráð fyrir að hlutfall ferða grunnskólabarna verði 25% …
Gert er ráð fyrir að hlutfall ferða grunnskólabarna verði 25% eftir fimm ár. mbl.is/Ernir

Hjólastígar verði hluti af nærumhverfi íbúa

Varðandi innviði er sem fyrr segir stefnt á eins milljarða fjárfestingu árlega, en auk þess eru markmiðin að stækka hjólastíganetið:

  • Hjólastígar í Reykjavík verði að minnsta kosti 50 km að lengd árið 2025 og yfir 100 km 2030.
  • Meira en 90% íbúa borgarinnar búi innan við 150 m frá hjólastíg árið 2030.
  • Hjólastæði við grunnskóla verði 5.000 talsins. Nú eru þau 3.300 talsins.
Hjólanetið í Reykjavík eins og staðan er í dag.
Hjólanetið í Reykjavík eins og staðan er í dag. Kort/Reykjavík
Samkvæmt hjólreiðaáætluninni er gert ráð fyrir fjölgun hjólastíga og að …
Samkvæmt hjólreiðaáætluninni er gert ráð fyrir fjölgun hjólastíga og að staðan árið 2030 verði eins og sést á þessari mynd. Kort/Reykjavíkurborg

40 km aukalega í forgangsvetrarþjónustu

Fjölga á stígum þar sem vetrarþjónusta verður snemma á morgnana, en markmiðin þegar kemur að bættri þjónustu eru:

  • Vetrarþjónusta á göngu- og hjólastígum verði aukin á tímabilinu.
  • Lengd stíga sem eru greiðfærir kl. 8 á morgni á virkum dögum verði að minnsta kosti 150 km árið 2025. Til samanburðar er þessi tala nú 110 km.
  • Tryggðar verði fullbúnar malbikaðar hjáleiðir fyrir gangandi og hjólandi þegar framkvæmdir eru í borgarlandinu.

Jafni hlutfall kynja meðal þeirra sem hjóla

Að lokum eru sett nokkur markmið varðandi hjólamenningu, en þar er horft til þess að hjólreiðar höfði til víðari hóps, en færri konur en karlar ferðast á hjóli:

  • Lögð verði áhersla á fjölgun hjólandi í öllum samfélagshópum og þróunin greind með reglubundnum hætti.
  • Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir til að auka hjólreiðar í hópum sem eru síst líklegir til að hjóla samkvæmt ferðavenjukönnun.
  • Jafnari hlutdeild ferða milli kynja.

Einnig er í áætluninni gert ráð fyrir að horft verði til lengra tímabils þegar komi að því að stækka og þétta hjólanetið í borginni.

Katrín Atladóttir stýrði vinnu hjólreiðaáætlunarinnar.
Katrín Atladóttir stýrði vinnu hjólreiðaáætlunarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

mbl.is greindi frá vinnu við gerð hjólreiðaáætlunarinnar fyrir tæplega mánuði síðan. Rætt var við Katrínu Atladóttur borgarfulltrúa, en hún hefur umsjón með vinnu við gerð áætlunarinnar. Þar kom meðal annars fram að árið 2010 hafi hlutfall hjólreiða aðeins verið um 2% í öllum ferðum innan borgarinnar. Árið 2014 var hlutfallið komið upp í 5,5% og árið 2019 var það 7%. Kannanir á ferðavenjum eru gerðar á tveggja ára fresti og því eru ekki til tölur fyrir árið í fyrra, en mikil sprenging varð þá í notkun reiðhjóla.Sagði Katrín þá að horft væri til þess að viðmiðunarhlutfallið 2025 yrði 10%, en ef í ljós kæmi í haust að hlutfallið væri þegar komið upp í þá tölu kæmi til greina að endurskoða markmiðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert