Segir að Benedikt hafi verið boðið annað sæti

Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður Viðreisnar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi …
Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður Viðreisnar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, var Benedikt Jóhannessyni, fyrrverandi formanni og einum af stofnendum Viðreisnar, boðið annað sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Það boð kom eftir að Benedikt var boðið neðsta sætið sem hann hafnaði og greindi frá á Facebook.

„Áður en uppstillingarnefndin skilaði inn lista var rætt við Benedikt og honum boðið annað sæti í öðru Reykjavíkurkjördæminu sem hann þáði ekki,“ segir Þorgerður og bætir við að hún hafi átt í mjög góðu samstarfi við Benedikt. „Það hefur verið einkar gott að eiga samstarf við hann og hann hefur reynst mjög ráðagóður í fjölbreyttum viðfangsefnum.“

Búið er að gefa út alla lista Viðreisnar nema í Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi en notast er við svokallaða fléttulista á framboðslistum Viðreisnar þar sem hver frambjóðandi má ekki vera af sama kyni og sá sem skipar sætið á undan.

Flokksfélagar ráða hvaða leið er farin

Tíðkast hefur að raða á lista Viðreisnar með uppstillingu. „Þetta er meginreglan í samþykktum flokksins og hefur verið alveg frá stofnun hans árið 2016,“ segir Þorgerður. Flokkurinn er með fimm landshlutaráð sem fylgja eftir kjördæmunum og segir Þorgerður að hvert og eitt þeirra ráði hvaða leið það vill fara í uppröðun á listunum. Hún leggur mikla áherslu á að flokksfélagarnir ráði því hvaða leið er farin.

Þorgerður tekur Reykjavík sem dæmi en þar er svokallað Reykjavíkurráð starfandi sem tekur til beggja Reykjavíkurkjördæmanna og er samansett af 70 til 80 grasrótarmönnum í flokknum. „Ráðið var auglýst og fólk var sérstaklega hvatt til þess að sækja um,“ segir Þorgerður og bætir við að allir sem sóttu um hafi komist að í ráðinu. „Fólk var svo hvatt til þess að tilnefna í uppstillingarnefnd,“ segir Þorgerður. Í Reykjavík var ákveðið að hafa fimm manna nefnd en á öðrum stöðum eru þriggja manna nefndir og er kosið í þær.

Prófkjör hlaut innan við 10% atkvæða

Þorgerður segir að tillaga hafi komið um prófkjör í Reykjavík innan Reykjavíkurráðsins og var í fyrsta skipti kosið um það en sú tillaga var felld með innan við 10% atkvæða.  

„Það er ekki hægt að segja að þessar nefndir fái öfundsvert hlutverk að stilla upp þessum listum en niðurstaðan er mjög glæsileg og ég er mjög stolt af listunum sem eru komnir,“ segir Þorgerður Katrín.

Uppfært: Fréttin var uppfærð eftir ábendingu frá Þorgerði Katrínu um að Benedikt var fyrst boðið neðsta sæti áður en honum var boðið annað sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert