Leggja ljósleiðara meðfram Suðurstrandarvegi

Verktakar í kappi við hraunstrauminn.
Verktakar í kappi við hraunstrauminn. Ljósmynd/Aðsend

Gagnaveita Reykjavíkur hefur nú hafist handa við lagningu ljósleiðara meðfram Suðurstrandarvegi, sunnan eldstöðva við Fagradalsfjall. Gagnaveitan segir það mikilvægt að koma rörum í jörðu áður en hraun flæði yfir svæðið.

„Strengur meðfram suðurströndinni er mikilvægur til að treysta fjarskiptasamband innanlands, ekki síst fyrir Suðurnesin, en líka vegna netsambands við útlönd.  Ljósleiðarastrengir milli Íslands og útlanda, með öllum þeim nauðsynlega gagnaflutningi sem um þá fer, liggja frá suðurströndinni,“ segir í fréttatilkynningu frá Gagnaveitunni.

Vinna samkvæmt hraunflæðisspá

Þótt eldgosið hafi sett verkefnið í ákveðna óvissu fékk Gagnaveitan Þóru Björgu Andrésdóttur til þess að gera hraunflæðisspá og nú tekur lega strengsins mið af henni. Rörið er rúmt og hægt að koma miklum fjölda ljósleiðarastrengja fyrir inni í þeim.

„Við vitum ekki hvað þetta gos mun vara lengi en við teljum mikilvægt að koma lögnum þarna fyrir áður en hraunstraumur nær til sjávar og enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi,“ segir Elísabet Guðbjörnsdóttir, verkefnastjóri hjá Ljósleiðaranum.

Elísabet Guðbjörnsdóttir, verkefnastjóri hjá Ljósleiðaranum.
Elísabet Guðbjörnsdóttir, verkefnastjóri hjá Ljósleiðaranum. Ljósmynd/Aðsend

 „Við leggjum strenginn óvenju djúpt, á eins metra dýpi, og nýlegar athuganir benda til að það eigi að vera öruggt. Mögulegur skaði ef við komumst ekki þessa leið með ljósleiðarann mánuðum, misserum eða árum saman, er meiri en sá að tapa hugsanlega hluta af nokkrum plaströrum. Þannig erum við að draga úr áhættu með því að ráðast í verkið í hvelli,“ bætir Elísabet við.

Rörin þola 190 gráðu hita

Hraunflæðisspáin sem stuðst er við bendir til að hrauntaumar geti víða náð niður að strönd standi gosið lengi. Ljósleiðarinn verður lagður á eins metra dýpi, sem er um tvöfalt dýpra en alla jafna. Athuganir benda til að hiti á 40 sentimetra dýpi undir hrauni fari fljótt í um 40 gráður en rörin, sem ljósleiðaraþræðirnir eru dregnir í, þola um 190 gráður. Þau gætu þolað meiri hita, það er að gögn berist um ljósleiðaraþræðina jafnvel þótt rörin utan um þá aflagist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert