Rithöfundasambandið fordæmir „ljóta aðför“

Fundurinn fordæmir tilraunir Samherja til að hafa áhrif á forystu …
Fundurinn fordæmir tilraunir Samherja til að hafa áhrif á forystu í Blaðamannafélagi Íslands og stjórnmálahreyfingum. mbl.is

Aðalfundur Rithöfundasambands Íslands „fordæmir þá ljótu aðför að mál- og tjáningarfrelsi sem og æru rithöfunda og fréttafólks sem opinberast hefur síðustu daga í fréttum af Samherja og þeim vinnubrögðum sem þar eru stunduð“.

Þetta kemur fram í ályktun sambandsins en aðalfundurinn var haldinn í gær.

„Það er með öllu ólíðandi að stundaðar séu ofsóknir, njósnir og skæruhernaður gegn fréttamönnum, rithöfundum og öðrum sem taka þátt í opinberri umræðu í samfélaginu,“ segir í ályktuninni.

„Eitt af hlutverkum Rithöfundasambands Íslands er að standa vörð um tjáningarfrelsið og verja frelsi og heiður ritlistarinnar. Félagsmenn líta það því alvarlegum augum þegar stórfyrirtæki og stjórnendur þess, sem hafa hagnast gríðarlega á því að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, nota fé og mannauð til að ráðast gegn og gera tilraunir til að grafa undan skrifandi stéttum, svo sem rithöfundum og fjölmiðlafólki, og þar með lýðræðinu sem grundvallast á frjálsri og óheftri umræðu,“ segir þar einnig.

Fundurinn fordæmir einnig tilraunir Samherja til að hafa áhrif á forystu í Blaðamannafélagi Íslands og stjórnmálahreyfingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert