„Viljum við í alvörunni fara aftur í sama far?“

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Minna er um alvarleg lögreglumál í miðbænum eftir að opnunartími veitinga- og skemmtistaða var styttur. Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að tölfræðigögn sýni svart á hvítu þá jákvæðu þróun í fjölda afbrota sem hafa átt sér stað eftir að opnunartími veitinga- og skemmtistaða var styttur vegna Covid-19.

Þannig hafi orðið gríðarleg fækkun á þeim málum sem rata á borð lögreglunnar í Reykjavík er varða obeldis-, kynferðis-, fíkniefna- og ölvunarakstursbrot og segir Jóhann að opna þurfi á umræðuna um hvort halda eigi opnunartímanum óbreyttum í stað þess að lengja hann aftur.

„Við sjáum alveg svakalegan mun á þessu eftir að opnunartíminn var styttur. Þetta var alltaf þannig að staðirnir máttu hafa opið til hálf fimm og svo fengu þeir klukkutíma til að losa húsið. Við sjáum bara á tölfræðinni hvernig málum sem tengjast ofbeldi og öðru slíku fjölga eftir því sem líður á nóttina. Núna mætir fólk bara fyrr niður í bæ og er komið fyrr heim. Það hefur orðið um 50-60% fækkun á öllum svona málum,“ segir Jóhann.

Fólk í sturlunarástandi

Þegar blaðamaður innti eftir mögulegri skýringu á því að brotum fjölgi eftir því sem líður á nóttina segir Jóhann það vera vegna óhóflegrar áfengis- og fíkniefnaneyslu. 

Ég er búinn að starfa við þetta í næstum 30 ár og ég veit ekki hve margar helgar ég hef verið á vakt niðri í bæ og fólk endar bara í ruglinu eftir klukkan þrjú. Í staðinn fyrir að vera að fara niður í bæ klukkan tíu og staðirnir mundu loka klukkan eitt eða tvö þá hafa margir verið að djamma til fjögur, fimm um nóttina, þegar staðirnir leyfðu það. Þá er það búið að vera djamma í sex tíma. Tíminn á milli fjögur og sjö á morgnana hefur oftast verið verstur fyrir okkur lögreglumennina. Þá er fólk oft komið í eitthvað sturlunarástand,“ segir hann.

Jóhann Karl segir að mun færri brot komi inn á …
Jóhann Karl segir að mun færri brot komi inn á borð lögreglunnar ef skemmtanalífið byrji fyrr og endir einnig fyrr. mbl.is/Eggert

Lögreglumenn finna fyrir létti

Samkvæmt Jóhanni hefur álag á þann fjölda lögreglumanna sem starfa í miðbænum minnkað til muna eftir að opnunartími veitinga- og skemmtistaða var styttur. Minna álag í miðbænum hefur svo veitt þeim meira svigrúm til þess að sinna útköllum í heimahúsum í úthverfum bæjarins, sem hafa fjölgað lítillega að sögn Jóhanns. 

„Við vorum með fjölda lögreglumanna skráða á miðbæinn allar helgar og vorum að manna þrjá stóra bíla bara til að sýsla í miðbænum en við höfum ekki þurft að gera það undanfarið. Við höfum kannski aðeins styrkt úthverfin vegna útkalla í heimahúsum, sem hafa fjölgað lítillega en þessum alvarlegri útköllum hefur stórfækkað. Þetta er ekki sami erill og var, þegar lögreglumenn mættu á vakt klukkan ellefu, ballið byrjaði klukkan eitt og menn orðnir úrvinda klukkan sjö á morgnana,“ segir Jóhann.

Boltinn í höndum borgarráðs

Að sögn Jóhanns hefur síðastliðið ár reynst vera ókeypis tilraun í þessum efnum og að tölfræðigögnin tali sínu máli. Afstaða Jóhanns í málinu er skýr en hann segir boltann nú vera í höndum borgarráðs.

„Tölfræðigögn síðasta árs sýna nákvæmlega hver staðan er og æpa eiginlega á það að borgin endurskoði opnunartímann og færi hann framar í nóttina. Við höfum reynt að benda borgarráði á þetta en þeir eru eitthvað að draga lappirnar finnst mér. Kannski vegna þrýstings frá veitingamönnum. Mín persónulega skoðun er sú að það sé engum greiði gerður að hafa staðina opna svona lengi,“ segir hann.

Jóhann segir að fækkað hafi í fjölmörgum brotaflokkum í faraldrinum, …
Jóhann segir að fækkað hafi í fjölmörgum brotaflokkum í faraldrinum, meðal annars þegar komi að ölvunarakstri. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hvetur fólk til umhugsunar

Að mati Jóhanns er mikilvægt að opna á umræðuna um þessa þróun og velta upp spurningunni um það hvernig við viljum haga hlutunum hér á landi.

„Mér finnst að fólk eigi að fá að vita þetta og fá að tjá sig um þetta. Opna á umræðuna og vekja fólk til umhugsunar í stað þess að hverfa strax aftur í sama gamla farið. Viljum við í alvörunni fara aftur í sama far? Það eru allir í spreng núna. Skemmtistaðir hafa verið lokaðir og fólk hefur ekkert fengið að djamma. Ég held að flestir verði bara þakklátir fyrir að fá að fara á staðina yfir höfuð,“ segir hann.

Jóhann hvetur það fólk sem hyggst lyfta sér upp um helgina að ganga hægt um gleðinnar dyr. „Tækifærið til að breyta menningunni og skemmtanamynstrinu er núna,“ segir hann að lokum.

„Viljum við við í alvörunni fara aftur í sama far?“ …
„Viljum við við í alvörunni fara aftur í sama far?“ spyr Jóhann Karl. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert