58 íbúar nú í Grímsey

Grímsey er um 40 kílómetra úti í hafi, útvörður byggðar …
Grímsey er um 40 kílómetra úti í hafi, útvörður byggðar á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Flug út í Grímsey frá Akureyri tekur um hálftíma. Hreyflar Twin Otter-flugvélarinnar möluðu jafnt og örugglega, hvar flogið var í um 3.000 fetum út Eyjafjörðinn. Tíu farþegar voru um borð; fólk sem raðaði sér í gluggasætin til þess að njóta þess sem fyrir augu bar. Landið var með sinugulan svip og talsverður snjór í ystu fjöllum á Tröllaskaga. Þegar komið var út fyrir mynni fjarðar sáust bátar sem bárur kysstu á fiskimiði. Í Grímsey hverfist lífið um sjósókn. Að vel veiðist er undirstaða byggðar þar.

Á 66° gráðunni

Lendingin í eynni var mjúk þar sem flugstjórinn smurði inn á brautina. Flaug á baug. Heimskautsbaugurinn, 66. gráða norðlægrar breiddar, þverar brautina og örfáa metra sunnan hans er flugstöðin.

Alls 58 manns eru í dag skráðir með lögheimili í Grímsey og hafa sjaldan verið færri. Raunar var fólk með viðveru í eynni í vetur ekki nema helmingurinn af þessari tölu, því margir dveljast í landi frá hausti til vors. Tvö ár eru síðan starfsemi grunnskólans í eynni var lögð niður og nú sækja börnin í skóla á Akureyri, sem Grímsey er nú hluti af eftir að hafa verið lögð niður sem sjálfstætt sveitarfélag fyrir nokkrum árum.

„Hér eru 5-6 börn á grunnskólaaldri og foreldrar þeirra litu svo á, að best væri að þau sæktu fjölmennari skóla. Mæðurnar hafa þá gjarnan fylgt börnunum eftir og hafa vetursetu þar. En nú er að koma sumar og þá er heldur betur líflegt hér,“ segir Ragnhildur Hjaltadóttir. Hún hefur verið búsett í Grímsey í um 35 ár og lengi haft flugafgreiðsluna með höndum.

Ferðir með ferju og flugi

Grímseyjarferðir eru á áætlun Norlandair þrjá daga í viku. Fleiri ferðir eru farnar séu farþegar, en yfir sumarið hefur þessi nyrsta byggð landsins komið sterk inn sem ferðamannastaður. Margir fara raunar í Grímsey frá Dalvík með ferjunni Sæfara, sem í sumar siglir fimm daga vikunnar. Er þá viðstaða höfð í eynni í allt að fimm stundir, svo ferðamenn hafa nægan tíma til að skoða sig um í eyjunni á heimskautsbaug, hvar eru verslun, veitingastaður – og svo handverkshús og gistiheimili.

Nú er í deiglunni er að breyta orkubúskap í Grímsey. Til stendur, eins og sagt hefur verið frá í Morgunblaðinu, að setja meðal annars upp vindmyllur og sólarorkuver. Fallorka ehf. annast verkefnið í samstarfi við Vistorku og Orkusetur með stuðningi úr Evrópuverkefninu SMARTrenew og Orkusjóði.

„Orkuskipti eru spennandi verkefni,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar. „Rafmagnsframleiðsla og húshitun hér eru að mestu með díselolíu og kostnaður hvers heimilis vegna þess hleypur á tugum þúsunda króna í hverjum mánuði. Því er hagur í því að leita nýrra leiða við orkuöflun, jafnhliða því sem þessi nyrsta byggð landsins gæti vakið athygli sem vistvænt samfélag. Þetta er mikilvægt mál í Grímsey í dag.“

Bátar við bryggu í Grímsey.
Bátar við bryggu í Grímsey. mbl.is/Sigurður Bogi
Ragnhildur Hjaltadóttir hefur lengi haft flugafgreiðslu í Grímsey með höndum.
Ragnhildur Hjaltadóttir hefur lengi haft flugafgreiðslu í Grímsey með höndum. mbl.is/Sigurður Bogi
Jóhannes Hennisson er formaður hverfisráðs Grímseyjar.
Jóhannes Hennisson er formaður hverfisráðs Grímseyjar. mbl.is/Sigurður Bogi
Twinn Otterflugvél Norlandair á Grímseyjarflugvelli.
Twinn Otterflugvél Norlandair á Grímseyjarflugvelli. mbl.is/Sigurður Bogi
Varpið fylgir vorinu. Sigurður Bjarnason lætur sig síga í Sjálandsbjarg.
Varpið fylgir vorinu. Sigurður Bjarnason lætur sig síga í Sjálandsbjarg. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »