„Þetta er algjör heimska“

Kormákur Geirharðsson.
Kormákur Geirharðsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kormákur Geirharðsson, annar eigenda Ölstofu Kormáks og Skjaldar við Vegamótastíg, segir það ekki lausnina að stytta afgreiðslutíma veitinga- og skemmtistaða í miðbænum.

„Þetta er svo mikið rugl,“ segir Kormákur.

Tölfræðigögn sýna að afbrotum í miðbænum hafi fækkað um rúmlega helming síðan afgreiðslutími var styttur vegna faraldursins.

Kormákur bendir á að síðustu mánuði hafi landsmenn verið að halda aftur af sér til að hefta útbreiðslu faraldursins. Því sé ekki hægt að notast við tölfræði síðustu mánaða til stuðnings styttri afgreiðslutíma, sem sýni ástandið í miðjum Covid-faraldri. Líta þurfi heildstætt á aðstæður.

„Ég bara spyr eru menn búnir að gleyma því hvernig þetta var þegar það var lokað klukkan þrjú? Þá fylltist bærinn gjörsamlega,“ segir Kormákur og bætir við:

„Þetta er algjör heimska og það þarf bara að fara nokkur ár aftur í tímann. Munið hvernig þetta var þá? Þá voru það bara heimapartí og ofbeldi færðist í úthverfin í staðinn.“

Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson, veitingamenn á Ölstofunni.
Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson, veitingamenn á Ölstofunni. Ljósmynd/Baldur Kristjáns

Viljum fara að skemmta okkur

Kormákur kveðst bjartsýnn fyrir sumrinu en veturinn hafi verið hark. „Ég held það sé einbeittur brotavilji að hafa gaman núna,“ segir hann og bætir við: „Þegar Covid er búið þá viljum við fara að skemmta okkur.“

Kormákur segist ekki vita til þess að aðrir eigendur veitinga- og skemmtistaða vilji að afgreiðslutíminn verði styttur nema þá kannski þeir sem hafi ekki opið nema til eitt eða tvö.

Á Ölstofunni fyrir faraldur veirunnar var hins vegar opið lengur og ef stemningin var mikil, um hálffjögurleytið, var afgreiðslutíminn nýttur til fulls að sögn Kormáks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert