Vísindamenn bíða óþreyjufullir

Þessi mynd var tekin í dag af eldgosinu við Fagradalsfjall …
Þessi mynd var tekin í dag af eldgosinu við Fagradalsfjall 3. maí. Ljósmynd/Birgir V. Óskarsson

Ekki hefur verið hægt að fljúga yfir gossvæðið til að mynda það í vísindaskyni síðan 18. maí vegna lélegs skyggnis.

Birgir V. Óskarsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, hefur tekið myndirnar á Hasselblad-myndavél. Hann fór í fýluferð síðasta föstudag. „Við flugum yfir en lentum í basli með skýjahuluna,“ segir Birgir og bætir við að uppstreymi og ókyrrð í lofti hafi verið yfir gosstöðvunum þótt víða annars staðar hafi aðstæður verið betri.

„Við höfum ekki komist í almennilegt myndaflug en erum alltaf í biðstöðu og bíðum eftir veðurspánni,“ greinir hann frá. Ólíklegt er að flogið verði í dag en kannski verður það gert síðar í vikunni.

Hraun rennur í Geldingadölum.
Hraun rennur í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fær margar fyrirspurnir

Þrívíddarlíkan er búið til úr myndunum og á sama tíma fást nýjustu tölur um rúmmál, flatarmál og hraunflæði á gosstöðvunum.

Birgir kveðst fá margar fyrirspurnir frá vísindamönnum um næsta flug, enda bíða þeir óþreyjufullir eftir nýjum tölum vegna rannsókna sinna. Næsta flug á eftir því sem flogið var 18. maí átti að vera 25. maí en reynt hefur verið að fara eitt flug í viku hverri síðan gosið hófst. Aftur var reynt á föstudaginn eins og áður sagði en án árangurs. 

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tölurnar í lausu lofti 

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus, segir allar tölur, meðal annars varðandi rúmmál hraunsins, vera svolítið í lausu lofti sem stendur vegna þess að ekki hefur verið hægt að fljúga yfir svæðið og mynda það. Hann getur því lítið tjáð sig um stöðu mála við Fagradalsfjall en nefnir aðspurður að enginn getur sagt til um hversu lengi gosið mun halda áfram.

Spurður almennt út í vísindarannsóknir í tengslum við gosið segir hann vinnuhópa vinna að ýmsum þáttum rannsókna og að allt sé í fullum gangi.

Vísindagreinar í undirbúningi

Vísindagreinar munu birtast í erlendum tímaritum um gosið en óljóst er hvenær það gerist. Páll segir allt vera í ritstjórnarferli og langan tíma taki að fá slíkar greinar birtar. „Það tekur yfirleitt marga mánuði og jafnvel ár að komast í gengum það ferli,“ segir hann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert