Byggingariðnaðinn skorti framtíðarsýn

Mynd úr verki sem unnið er úr rannsóknarverkefni Önnu Maríu …
Mynd úr verki sem unnið er úr rannsóknarverkefni Önnu Maríu sem ber titilinn Jarðsetning Ljósmynd/Laimonas Dom

Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur, segir einnota neyslumenningu nú ríkjandi í íslenskum byggingariðnaði og telur hún mikilvægt að við förum að tileinka okkur meiri framtíðarsýn í þessum málum enda stöndum við nú á tímamótum vegna umhverfisins.

Anna vinnur nú að rannsóknarverkefninu Jarðsetningu sem fjallar um stöðugar breytingar í borginni og er hún meðal annars með bók og kvikmynd í vinnslu. Rannsóknir hennar snúa að miklu leyti um líftíma bygginga í Reykjavík og allt ferlið í kringum það. 

Varðveisla mikilvæg fyrir framtíðina

Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur
Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur Ljósmynd/Aðsend

 „Við tölum oft um varðveislu á forsendum sögunnar en að mínu mati snýst varðveisla um framtíðina og hvað við ætlum að taka með okkur inn í hana, hvað viljum við varðveita. Svo fjallar þetta líka um hvað það er sem við byggjum nýtt og hvort það eigi að standa lengi. [...] Fyrsta skrefið í varðveislu er náttúrulega að vel sé staðið að byggingum nýbygginga,“ segir Anna í samtali við blaðamann mbl.is.

Telur hún þá minni áherslu lagða á það í dag að byggingar standi til lengri tíma. Það megi meðal annars rekja til þeirrar kröfu um að byggingarkostnaði sé haldið í lágmarki.

„Sjóðirnir sem standa að baki bygginga eru oft með líftíma í kringum 10 til 20 ár sem er miklu styttri líftími heldur en byggingarnar sjálfar.“

Byggingar jarðsettar í kyrrþey

Anna vekur athygli á ósamræminu sem felst annars vegar í þeirri miklu viðhöfn þegar framkvæmdir hefjast og hinsvegar þögninni þegar við byggingar eru rifnar og teknar niður.

„Við fögnum hinum nýja en svo þegar verið er að kveðja byggingar þá er þessu bara hent og yfirleitt er enginn að spá neitt sérstaklega í það. Byggingar eru jarðsettar í kyrrþey.“

Bendir Anna á að niðurrif húsa sé mikilvægur hluti af ferli bygginga sem við hugsum yfirleitt ekki mikið um. Oft og tíðum erum við heldur ekki meðvituð um hvers vegna við séum yfirhöfuð að losa okkur við þau. Er þessi hugmyndafræði hluti af neyslumenningu samtímans.

Borgarlandslagið skoðað í gegnum ljósmyndir

Ljósmynd úr ljósmyndasýningunni Hið þögla en göfuga mál.
Ljósmynd úr ljósmyndasýningunni Hið þögla en göfuga mál. Ljósmynd/Sigurhans E. Vignir

Erindi Önnu Maríu, Umbreyting borgarlandslagsins, verður haldið í hádeginu á morgun í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en það er hluti af dagskrá sem stendur yfir vegna 40 ára afmælissýningu safnsins.

Mun erindið flétta saman vangaveltum Önnu um byggingarlist nútímans og ljósmyndum úr safni Sigurhans Vignis úr ljósmyndasýningunni Hið þögla en göfuga mál.

„Ég er aðeins að horfa í myndirnar, velta vöngum yfir því hvernig hlutirnir hafa þróast og hvar við stöndum í dag og reyna að flétta það inn í vangaveltur mínar og rannsóknir. [...] Ljósmyndin hefur verið svo mikið hreyfiafl hugmynda og haft svo mikil áhrif á það hvernig við höfum byggt, þó hún sé alltaf kyrr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert