Fasteignamat hækkar um 7,4%

Sérbýli hækkar umfram fjölbýli samkvæmt nýju fasteignamati sem taka mun …
Sérbýli hækkar umfram fjölbýli samkvæmt nýju fasteignamati sem taka mun gildi í lok desember. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Heildarmat fasteigna á Íslandi fyrir árið 2022 hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár fyrir komandi ár. Matið hækkar margfalt meira en á síðasta ári, þegar hækkunin nam um 2,1% á landinu öllu. Heildarmatið núna hljóðar upp á samtals 10.340 milljarða króna fyrir allar fasteignir landsins.

Töluverðu munar á milli landsvæða og til marks um það hækkar heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu um 8% en um 5,9% á landsbyggðinni. Mest er hækkunin á Vestfjörðum, eða sem nemur um 16,3%. Nemur hún 8,6% á Norðurlandi vestra, 6,7% á Suðurlandi, 6,6% á Austurlandi, 5,1% á Suðurnesjum, 4,8% á Vesturlandi og 4,2% á Norðurlandi eystra.

Þegar litið er til einstakra sveitarfélaga hækkar heildarfasteignamat mest í Bolungarvík, eða um 22,8%. Þar á eftir fylgir Ísafjarðarbær með 18,9% hækkun og svo Vesturbyggð með um 15,3%. Mest lækkar heildarfasteignamatið í Skorradalshreppi, eða um 2,6%.

„Við erum að sjá nokkuð meiri hækkun á fasteignamati heilt yfir landið en fyrir ári síðan, sem er í takt við þróun fasteignaverðs á tímabilinu febrúar 2020 til febrúar 2021,“ er haft eftir Margréti Hauksdóttur, forstjóra Þjóðskrár, í tilkynningu frá stofnuninni, sem um er fjallað í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert