Hætt verður að skima bólusetta

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Arnþór

Um áttatíu prósent þeirra sem fara um Keflavíkurflugvöll koma með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu á Covid-19. Til stendur að hætta að skima þann hóp við komu til landsins.

„Eins og verið hefur eru bólusettir og þeir sem framvísa vottorði um fyrri sýkingu undanþegnir sóttkví við komu til landsins. Þessi hópur fer sístækkandi og nemur nú um 80 prósent allra komufarþega um Keflavíkurflugvöll.

Stefnt er að því að hætta taka sýni úr þessum hópi frá og með miðjum júní,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra í munnlegri skýrslu sinni um stöðu bólusetninga og sóttvarnaráðstafana á Alþingi í dag.

Vottorð skoðuð fyrir byrðingu

Einnig kom fram í máli heilbrigðisráðherra að Sigurður Ingi Jóhansson, samgönguráðherra, muni gefa út reglugerð á morgun þar sem skylda verður lögð á flugrekendur að skoða vottorð farþega fyrir byrðingu. 

„Þetta getur létt verulega á álagi og afgreiðsluhraða á Keflavíkurflugvelli,“ sagði Svandís. 

Covid-19-tengd vottorð, það er bólusetninga-, mótefna- og PCR-vottorð, verða gefin út á samræmdan hátt innan EES-landa og Sviss, er einnig kom fram í máli Svandísar. 

„Gert er ráð fyrir að þessi vottorð verði komin í gagnið þann 1. júlí og Ísland er þegar tæknilega undirbúið að taka þátt í tilraunaverkefni sem hefst á næstu dögum.“

mbl.is