Mun minna um afbrot í miðborginni

Mun færri afbrot hafa verið tilkynnt til lögreglu það sem …
Mun færri afbrot hafa verið tilkynnt til lögreglu það sem af er ári miðað við sama tímabil fyrri ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt samantekt lögreglunnar á tölfræðiupplýsingum um þróun ofbeldis- og kynferðisbrota í miðborginni hefur tilkynntum afbrotum í miðborg Reykjavíkur um helgar fækkað um rúmlega helming.

Upplýsingarnar voru teknar úr málaskrá lögreglu frá árinu 2007 og fram til 31. maí 2021 og er miðað við öll þau brot sem tilkynnt voru lögreglu á þessu tímabili.

Almenningur breytt hegðun sinni

Í samantektinni segir að vert sé að hafa í huga að mismunandi takmarkanir á samkomum hafi verið í gildi árin 2020 og 2021, t.a.m. var öllum skemmtistöðum, börum og krám gert að loka. Eins megi ætla að almenningur hafi breytt hegðun sinni þegar kórónuveirusmit voru hvað flest hér á landi.

Tilkynnt afbrot og verkefni lögreglu í miðborginni um helgar hafa verið um 57% færri það sem af er ári, miðað við meðaltal fyrir sama tímabil árin 2007 til 2020, og um 11% færri á virkum dögum.

Graf/Lögreglan

Tilkynningum um líkamsárásir um helgar á fyrstu fimm mánuðum ársins fækkaði um 66% miðað við meðalfjölda árin 2007 til 2020 um helgar, en fjöldinn breyttist lítið virka daga.

Graf/Lögreglan

Tilkynningar um líkamsárásir á skemmtistöðum um helgar voru 78% færri árið 2020 miðað við meðalfjölda árin 2007 til 2019. Tilkynningar á virkum dögum voru um 5% færri.

Graf/Lögreglan

Ekki eina skýringin

„Þó svo að það sjáist nokkur tengsl milli Covid-lokunar skemmtistaða og vínveitingahúsa er það ekki eina skýringin á fækkun ofbeldisbrota,“ segir Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og áætlunardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um samantektina.

„Fólk hélt sig til dæmis almennt meira heima við og forðaðist sjálfviljugt mannsöfnuði vegna Covid. Í einhverjum tilvikum fluttist vandinn til og hefur til dæmis orðið aukning í heimilisofbeldismálum.“

mbl.is