Vilja vita hvort bólusetningin hafi heppnast

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsverður fjöldi fólks sækir í mótefnamælingu hjá rannsóknarstofu Sameindar eftir Covid-19 bólusetningu til þess að fullvissa sig um að það hafi myndað mótefni gegn Covid-19. Yfirleitt mælist nóg af mótefni eftir bólusetningu en í sumum tilvikum mælist fólk ekki með nægilega góða mótefnasvörun.

Öll bóluefnin sem eru í notkun hér á landi virðast gefa mjög góða svörun en svörunin er sérstaklega góð hjá fólki sem hefur fengið bólusetningu með bóluefni Pfizer annars vegar og Moderna hins vegar.

„Það er talsvert af fólki sem kemur til okkar í mótefnamælingu. Stór hluti þeirra hefur farið í bólusetningu og vill vita hvort bólusetningin tókst eða ekki. Þá kemur það í þá mælingu sem mælir mótefnið í blóðinu,“ segir Sturla Orri Arinbjarnarson, sérfræðingur í ónæmisfræði og framkvæmdastjóri Sameindar.  

Mikilvægt fyrir fólk með undirliggjandi sjúkdóma

„Þetta er mikilvægt fyrir fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem hefur farið í bólusetningu, það vill vita hvort þeirra bólusetning tókst eða ekki vegna þess að það er alltaf í einhverjum tilvikum sem bólusetning tekst ekkert svakalega vel. Það er slæmt að vera með undirliggjandi sjúkdóm og fara til Kanarí og halda að allt sé í góðu lagi ef bólusetningin tókst ekki.“

Sameind býður upp á tvenns konar mótefnamælingar.

„Annars vegar erum við með mælingar þar sem við mælum svokölluð N-prótein eða kjarnahýðisprótein og mótefni gegn þeim. Það segir til um það hvort viðkomandi hafi fengið sýkingu eða ekki. Síðan erum við með annað próf sem mælir mótefni gegn broddpróteinunum, við mælum mótefni þar hvort sem viðkomandi hefur fengið sýkingu eða bólusetningu,“ segir Sturla.

Fólk sáralítið varið til að byrja með

Aðspurður segir hann að flestir séu með mjög góða mótefnasvörun. „Það eru einstaka aðilar, sérstaklega þeir sem hafa verið í ónæmisbælandi lyfjameðferð, sem eru ekki að mælast með nógu góða svörun að okkar mati.“

Sturla segir að strax eftir fyrstu sprautu mælist engin mótefni. Þau byrja að mælast eftir 10 til fjórtán daga.

„Þá þarf fólk að átta sig á því að það er sáralítið varið fyrstu 10-14 dagana, svo eftir seinni sprautuna tekur þetta virkilega við sér og mótefnamagnið fer að hækka,“ segir Sturla.

„Hjá öllum framleiðendum erum við að sjá mjög góða svörun. Við höfum tekið eftir því að þeir sem fá Pfizer og Moderna eru með mjög háa svörun. Svörunin er yfirleitt góð, sérstaklega þegar um þrjár vikur eru liðnar frá seinni skammti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert