Líklega meiri útbreiðsla án bólusetningar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklega hefði kórónuveiran náð að breiðast töluvert meira út í samfélaginu að undanförnu ef víðtæk bólusetning hefði ekki komið til, að mati sóttvarnalæknis. Hann telur að bólusetningar og sóttvarnaaðgerðir hafi leikið lykilhlutverk í því að halda faraldrinum í skefjum. 

Þrjú kórónuveirusmit greindust í gær, þar af eitt utan sóttkvíar. Líkur eru taldar á því að það smit sé gamalt en það hefur ekki fengist staðfest.

„Það er ekki alveg ljóst á þessari stundu, það er verið að rekja það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður um tengsl smitsins sem kom upp utan sóttkvíar við fyrri smit.

„Svo er líka verið að bíða eftir niðurstöðu úr raðgreiningu sem hjálpar okkur mjög mikið. Þetta gæti líka verið ekki alveg nýtt smit.“

Tengjast smitum sem ekki er hægt að rekja til landamæranna

Smitin tvö sem greindust innan sóttkvíar tengjast fyrri smitum.

„Þau tengjast þessum smitum sem við getum ekki rakið til landamæranna,“ segir Þórólfur.

Spurður um það hversu mörg smit séu á meðal þeirra sem ekki er hægt að rekja til landamæranna segir Þórólfur: „Þau eru orðin nokkur, ég er ekki með nákvæma tölu á því.“

Þórólfur telur að kórónuveirusmit hefðu getað breiðst meira út að undanförnu ef bólusetningar og sóttvarnaaðgerðir hefðu ekki komið til. 

„Ég held að maður geti sagt að maður hefði getað búist við meiri útbreiðslu ef engin bólusetning hefði verið í gangi og ekkert ónæmi í samfélaginu. Það sýnir sig að útbreiðslan er ekki mikil og ég held að það beri að þakka það bólusetningunni annars vegar og hins vegar þessum sóttvarnaaðgerðum sem einstaklingar viðhafa.“

Mælast ekki til þess að fólk fari í mótefnamælingar

Aðspurður segist Þórólfur efast um að farið verði í víðtæka mótefnamælingu hjá bólusettum. Miðað við mótefnamælingu Sameindar virðast flestir bólusettir mynda gott mótefnasvar gegn Covid-19 en einstaka aðilar gera það ekki. 

„Það þarf að túlka fyrir fólki hvað [niðurstöður mótefnamælingar] þýða nákvæmlega og ráðleggja þá fólki, hvort það eigi að fara í aðra bólusetningu eða ekki. Það getur verið heljarinnar pakki í kringum þetta. Við erum ekki að mælast til þess að fólk fari almennt í mótefnamælingar eftir bólusetninguna. Það geta verið ástæður til þess að gera það í einhverjum tilfellum. Þá þarf að skoða það sérstaklega.“

Hefur ekki gefið út að hætta eigi skimun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær að stefnt væri að því að hætta skimun bólusettra ferðamanna sem koma hingað til lands. Þórólfur segir að í hans minnisblöðum hafi komið fram að ástæða væri til að skoða málin á landamærunum um miðjan júní. 

„Hvort það væri ástæða til þess að draga eitthvað úr eftirliti og sýnatökum á landamærunum. Ég hef ekki gefið neitt út um það að það eigi eða ég telji að það eigi að hætta einhverju um miðjan mánuð. Ég hef sagt að ég telji að það sé full ástæða til að endurskoða það sem við erum að gera og sjá hvort við getum einfaldað hlutina,“ segir Þórólfur.

mbl.is