Segir Svandísi ekki hlusta

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Faglæknar í fæðinga- og kvensjúkdómum fengu ekki fund með Landlækni, heilbrigðisráðherra eða vinnuhóps á vegum heilbrigðisráðuneytisins þegar óskað var eftir því, að því er fram kemur í viðtali við Aðalbjörgu Björgvinsdóttur, formann Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna í Læknablaðinu

Þar segir hún að hún hefði að óreyndu ekki trúað því að á þau yrði ekki hlustað þegar kæmi að ábendingum fæðinga- og kvensjúkdómalækna á annmörkum við greiningu leghálssýna í Danmörku. 

Aðalbjörg rekur í viðtalinu að félagið hafi sent ráðherra bréf í desember og aftur ásamt Félagi íslenskra rannsóknarlækna í janúar en ekki fengið nein viðbrögð. Opið bréf hafi einnig verið sent á ráðherra og segir Aðalbjörg að félagið hafi séð sig knúið til að benda á sinn málstað opinberlega þar sem ekki væri á þau hlustað. 

„Þetta veldur vonbrigðum með yfirvöld og hefur skapað vantraust á vinnubrögðum þeirra,“ er haft eftir Aðalbjörgu í Læknablaðinu. 

Þegar óskað var eftir fundi með landlækni hafi Alma Möller bent á að embættið væri eftirlitsaðili og vísaði á vinnuhóp á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Sá hópur hafi þá þegar fundað með Læknafélagi Íslands.

Aðalbjörg tjáir áhyggjur sínar af mistökum í ferlinu við að færa skimanir til Danmerkur viðtalinu. 

 

mbl.is