Sýnir mikilvægi seinni skimunar

Skimað við flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Skimað við flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú smit hafa greinst við seinni skimun á landamærunum á tveimur dögum. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir þetta sýna vel hversu mikilvæg þessi skimun er. 

Næsta breyting sem verður á landamærunum snýr að því að hætt verður að skima þá sem koma til landsins og hafa verið bólusettir eða eru með vottorð um fyrri smit. Ekki er horft til þess að hætta skimun þeirra sem eru óbólusettir að sögn Víðis og ekkert verið rætt um hvenær því verði hætt. 

Víðir segir að þrátt fyrir að mikill fjöldi sé að koma til landsins hafi afgreiðslan gengið vel. Þegar mestu annirnar eru þarf fólk að bíða í biðröð en lengsta biðin er þegar bólusetningarvottorð eru skoðuð. 

Við breytingu á staðsetningu skimunar á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku varð afkastagetan meiri og flæðið eðlilegra. 

Að sögn Víðis eru bundnar miklar vonir við rafrænar lausnir á Covid-19-tengdum vottorðum, það er bólu­setn­inga-, mót­efna- og PCR-vott­orðum, því það getur tekið allt að sex mínútur að fara yfir hvert vottorð. „Þegar þetta verður rafrænt verður þetta talið í sekúndum hjá þeim sem eru með sín mál í lagi.“ 

Samræmd Covid-19-vottorð verða gefin út meðal ríkja Evrópusambandsins, sem og Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss og taka þau gildi 1. júlí. Víðir segir að Ísland þegar komið með rafræn vottorð og er eitt sex ríkja sem eru að prufukeyra slík vottorð. 

„Okkar kerfi voru tilbúin frá 1. júní að taka við þessum vottorðum en þá voru kerfin uppfærð sem notuð eru í sóttvarnakerfinu á landamærunum, svo sem forskráningar,“ segir Víðir.

Umrædd lönd eiga öll að vera komin með þetta kerfi um næstu mánaðamót og segir Víðir að fleiri ríki séu að skoða sambærilegar rafrænar lausnir, svo sem Bretland, Kanada og einhver ríki Bandaríkjanna. „Við verðum tilbúin að vinna með þessum aðilum þegar þar að kemur,“ segir Víðir og bætir við að það skipti miklu varðandi afgreiðsluhraða á flugvellinum.

Langflest smitin tengjast

Langflest smit sem hafa greinst að undanförnu tengjast og segir Víðir að nú sé beðið eftir næstu fjórum dögum, það er fram á þriðjudag, varðandi reynslu af þeim tilslökunum sem gripið var til innanlands síðast. „Við erum þar sérstaklega að horfa til síðustu helgar þar sem þá var mikið fjör og margir að koma saman,“ segir Víðir. Hann segir að á þriðjudag komi í ljós hvort fólk hafi farið varlega og gætt að sér og eins áhrif bólusetninga á smithættu.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert