90% Íslendinga ætla að ferðast innanlands í sumar

Það stefnir allt í íslenskt ferðasumar samkvæmt nýrri könnun Ferðamálastofu
Það stefnir allt í íslenskt ferðasumar samkvæmt nýrri könnun Ferðamálastofu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu af hverjum tíu landsmönnum ætla að ferðast innanlands í júní, júlí og ágúst. Þetta kemur fram í nýrri könnun Ferðamálastofu sem framkvæmd var af Gallup um ferðaáform Íslendinga.

Stefna þá landsmenn að meðaltali í þrjú ferðalög yfir sumarið og mælast sumarbústaðarferðir hvað vinsælastar. Mun þá einnig stór hluti ferðast til að heimsækja vini og ættingja víðs vegar um landið og enn aðrir stefna á ferðalög með vinahópum eða klúbbfélögum.

Hótelgistingar eru einnig vinsælar en tæplega helmingur landsmanna munu nýta sér þá þjónustu og eru þá eldri einstaklingar líklegri en þeir yngri að gera svo. Munu þá 40% Íslendinga treysta á gistipláss hjá vinum og ættingjum eða í sumarhúsum í einkaeign, en um 33% munu nýta þjónustu tjaldsvæða eða orlofshúsa félagssamtaka.

Utanlandsferðir á kortunum

Utanlandsferðir virðast vera komin á ferðaplön Íslendinga fyrir þetta ár en samkvæmt upplýsingum úr könnuninni sjá rúmlega 22% landsmanna fram á að fara í borgarferð, tæp 16% í sólarlandaferð og rúmlega 20% í heimsókn til vina og ættingja erlendis.

Hægt er að kynna sér frekari niðurstöður úr könnuninni á vefsíðu Ferðamálastofu.

mbl.is