Ætla að vera agressíf og skáka keppinautunum

Guðmundur Daði Rúnarsson er bjartsýnn á framtíðina eftir erfitt tímabil …
Guðmundur Daði Rúnarsson er bjartsýnn á framtíðina eftir erfitt tímabil vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Markmið Isavia er að Keflavíkurflugvöllur vaxi hraðar út úr Covid-ástandinu heldur en samkeppnisflugvellirnir, þar á meðal í Dublin, Amsterdam, París, Brussel og London.

„Viljum ná sömu farþegatölu og var 2019 á undan þeim. Það er markmið sem við höfum sett okkur. Það er kannski háleitt og kannski kemur í ljós að hafi verið óraunhæft en sú stefna sem við höfum tekið er að vera agressíf úti á markaðnum og fá flugleiðir aftur í gang,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, sem annast rekstur flugvallarins.

Kostar álíka og Harpa 

Hann bætir við að Isavia sé mjög bjartsýnt fyrir árið 2022 og telur að hlutirnir eigi eftir að fara hratt upp á við. Lykillinn að því að ná markmiðinu sé að tengistöðin á milli Evrópu og Ameríku hjá Icelandair komist í gang sem fyrst.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdirnar við nýja viðbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru nátengdar þessum markmiðum en stefnt er að því hún verði tekin í notkun árið 2024. Með þessari 20 þúsund fermetra byggingu vill Isavia bæta þjónustuupplifun ferðamanna og auka samkeppnishæfni flugvallarins. Verðmiðinn er tæpur 21 milljarður. Til að setja þessa tölur í samhengi er það næstum því jafnmikið og tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa kostaði og fermetrastærðin er álíka mikil og í upphaflegu flugstöðinni sem var tekin í notkun árið 1987. Hlutafjáraukning íslenska ríkisins skipti þarna höfuðmáli við að hleypa verkefninu af stokkunum, að sögn Guðmundar Daða. Ef hún hefði ekki orðið hefði jafnvel þurft að fresta framkvæmdunum um tvö til þrjú ár.

„Þetta er frábær tímapunktur til að fara af stað í svona stórframkvæmdir og miklar innviðafjárfestingar þegar það hefur verið högg á atvinnulífið. Við getum þá hjálpað til við endurreisnina, bæði á ferðaþjónustunni og atvinnulífinu,“ segir hann en gert er ráð fyrir að um 300 til 700 störf skapist meðan á framkvæmdunum stendur næstu þrjú árin.

Næsta viðbygging verður síðan 26 þúsund fermetrar en kostnaðaráætlun vegna hennar er ekki tilbúin. Áætlað er að framkvæmdir við hana byrji á árunum 2024 til 2026.

Vilja styðja við vöxt Icelandair og Play

Spurður nánar út í samkeppnina við aðra flugvelli segir Guðmundur Daði að þegar farþegi velji sér flug yfir Atlantshafið sé hann bæði að velja flugfélag og í gegnum hvaða flugvöll hann vill fljúga. Ef hann flýgur í gegnum Keflavíkurflugvöll er líklegra að hann vilji koma aftur og heimsækja Ísland. Stefnan er að farþeginn upplifi Ísland er hann lendir á flugvellinum og langi að skoða land og þjóð. „Við búum til áhuga á að þú verðir ferðamaður til Íslands í framtíðinni,“ útskýrir hann og segir mikilvægt að tengistöðin og aðstaðan í Keflavík styðji við vöxt Icelandair núna og vonandi Play á næsta ári.

Í framkvæmdunum sem eru að hefjast verður bætt við fjórum landgöngubrúm og fjölgar þeim þar með í úr 13 í 17. Um leið dregur úr akstri með farþega í rútum. Flugvélastæðin eru annars 22 talsins. Guðmundur Daði segir þetta lið í að bæta gæði þjónustunnar á flugvellinum. Bæði farþegar og flugfélög hafi kallað eftir því.

Það var tómlegt um að litast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar …
Það var tómlegt um að litast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar þessi ljósmynd var tekin í miðjum faraldri fyrir rúmu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðrir flugvellir í vandræðum

Spurður hvort Isavia geti í raun og veru keppt við þessar stóru erlendu borgir segist hann vera sannfærður um það. Lega landsins á miðju Atlantshafi sé frábær og fyrir vikið geti flugfélög notaði minni og hagkvæmari flugvélar í lengri vegalengdum. Einnig segir hann nægt landrými vera til stækkunar á Keflavíkurflugvelli og að aukning hafi verið í fluginu til Evrópu. Margir af stóru flugvöllunum séu að lenda í vandamálum með afköst. Afgreiðslutímar séu ekki til og ekki pláss til að stækka. Hann nefnir Heathrow í London sem dæmi en þar hefur lengi verið í bígerð að byggja þriðju flugbrautina.

„Við teljum okkur geta vaxið tvöfalt frá því sem mest var árið 2018 ef við horfum til landrýmis. Þetta er hluti af samkeppnishæfninni og ef það gengur vel hjá Icelandair og Play og þau eru að ná árangri í sinni starfsemi þá geta þau verið nokkuð viss um að það er ansi langt í að Keflavíkurflugvöllur verði flöskuháls á þeirri starfsemi,“ segir Guðmundur Daði. 

Maður á gangi á Heathrow-flugvelli fyrr á árinu.
Maður á gangi á Heathrow-flugvelli fyrr á árinu. AFP

15 milljónir eftir 20 ár

Isavia áætlar að 15 milljónir farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll á ári eftir 20 ár. Þegar mest var fóru 9,8 milljónir farþega um flugvöllinn árið 2018. Í ár er gert ráð fyrir tveimur milljónum farþega.

Reiknað er með því að allt að 20 flugfélög fljúgi um Keflavíkurflugvöll í sumar. Tíu hafa þegar hafið flug og um helgina bætist United Airlines við og Play eftir þrjár vikur. Mörg flugfélög hafa einnig selt miða til Íslands en eiga eftir að fara fyrsta flugið. Guðmundur Daði segir áhugann á Íslandi því mikinn og bjarta tíma fram undan. Til marks um það er búist við því að stöðugildi hjá Isavia verði orðin 648 í júlí en í mars síðastliðnum voru þau 448 talsins.

Flugvél United Airlines.
Flugvél United Airlines. Ljósmynd/Aðsend

Flug hafið:

Icelandair, Lufthansa, Wizz Air, Air Baltic, Transavia, Delta, Vueling, easyJet, United Airlines

Flug dagsett en ekki hafið:

Play, SAS

Flug í sölu en flug ekki hafið:

Austrian, British Airways, Czech Airlines, Eurowings, Finnair, Iberia Express, Norwegian

Guðmundur Daði.
Guðmundur Daði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert