Ekki eðlilegt að haga sér svona

Bogi Adolfsson segir ekki eðlilegt að haga sér eins og …
Bogi Adolfsson segir ekki eðlilegt að haga sér eins og maðurinn gerði. Samsett mynd

„Hann hlýtur að fá verðlaunin hálfviti aldarinnar. Það er ekki eðlilegt að haga sér svona. Honum er allavega ekki annt um lappirnar á sér,“ segir Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns, um ferðamann sem lagði sig í stórhættu á gosstöðvunum.

Maðurinn gekk út á hraunið og stóð þar í dágóða stund. Á sama tíma logaði allt í kringum hann, eins og sést í meðfylgjandi myndskeiði sem Hermann Helguson, leiðsögumaður hjá Iceland ProCruises og ljósmyndari, tók um hálfþrjúleytið í fyrrinótt.

View this post on Instagram

A post shared by Hermann Helguson (@hemmi90)

Verst þegar börnin eru sett upp á hraunið

„Maður hefur séð fólk gera þetta en ekki samt í þessari líkingu,“ segir Bogi, sem segir verst þegar fólk setur börnin sín upp á hraunið til að mynda það. „Menn halda að kanturinn sé kaldur en þegar þetta er nýtt getur þetta verið 1.300 gráðu heitt,“ talar hann um og á þar við hitastigið einungis um einn metra undir hrauninu.

Maðurinn steig út á hraunið eftir miðnætti þegar enginn viðbragðsaðili var á svæðinu. Bogi segir að björgunarsveitarfólki hafi fækkað á svæðinu, enda eru landverðir núna komnir í hóp viðbragðsaðila. Þeir eru á vakt frá klukkan 9 til 20 á kvöldin.

„Ef maður sér fólk þegar maður er á ferðinni þá flautar maður á það og tekur spjallið en við náum ekki öllum því miður,“ segir hann, spurður hvort menn bregðist ekki við uppátækjum sem þessum.

Þrjú skilti hafa sömuleiðis verið sett upp á gosstöðvunum þar sem varað er við hættu.

Hraunið getur orðið 1.300 gráðu heitt að sögn Boga.
Hraunið getur orðið 1.300 gráðu heitt að sögn Boga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Trúði ekki því sem hann sá 

Hermann Helguson segist hafa fengið töluverð viðbrögð við myndskeiðinu, bæði á Instagram og Facebook. „Ég held að það sé ágætt að fólk sé að fordæma þetta til að koma í veg fyrir að fólk fari að gera álíka kúnstir,“ segir hann.

Hermann var í einkaerindum að mynda hraunið þegar hann horfði til hliðar og heyrði fólk rökræða frekar hátt, líklega Svisslendinga.  „Svo hoppar hann allt í einu á þennan hraunstall með glóandi hraunið undir sér. Ég trúði ekki því sem ég sá og myndaði hann,“ bætir hann við.

Ferðamaðurinn stóð á hrauninu í dágóða mínútu, að sögn Hermanns, og á meðan tók konan sem var með honum myndir af honum. „Ég skil ekki hvernig hann gat verið svona lengi,“ segir Hermann og bætir við að hann hafi séð ýmislegt í þau tíu skipti sem hann hefur farið á gossvæðið en þetta hafi verið það allra heimskulegasta.

Ætlaði að fanga hina fullkomnu mynd

Lögreglan á Suðurnesjum tjáði sig um atvikið á facebooksíðu sinni sem hún sagði mjög dapurt. „Þessi einstaklingur ætlaði sér að fanga það sem að honum fannst vera hin fullkomna mynd. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta en athæfið er mjög hættulegt og ef yfirborð hraunsins hefði gefið sig væri ekki spurt að leikslokum. Förum varlega og sýnum náttúrunni, viðbragðsaðilum og okkur sjálfum virðingu,“ segir í færslu lögreglunnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina