Gönguleið undir hraun

Gönguleið við Gónhól lagðist undir hraun snemma í morgun.
Gönguleið við Gónhól lagðist undir hraun snemma í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Hraun flæddi yfir gönguleið við hinn svokallaða Gónhól snemma í morgun. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum , segir rennsli hraunsins hafa verið viðbúið og því hafi lögreglan tekið ákvörðun um að loka svæðinu nokkrum dögum áður.

„Hraunið var komið upp fyrir hæðina á skarðinu þannig það var bara tímaspursmál hvenær það myndi byrja að renna þarna yfir,“ segir Rögnvaldur.

Upplýsingarnar um hraunflæðið bárust lögreglu rétt fyrir 9 í morgun en ekki er vitað til þess að einhver hafi lent í hættu vegna þess enda þoka og lélegt veður og ekki margir á kreiki.

Ferðamenn hafa hingað til verið að freistast til að fara upp á hólinn þrátt fyrir lokanir lögreglu en nú er það ekki lengur möguleiki þar sem hraunið rennur saman í kringum Gónhól og svæðið því orðið lokuð eyja, eða svokallaður óbrennishólmi.

Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður á Suðurnesjum, segir ekki þörf á að loka stærra svæði eins og stendur.

„Þetta var nú lokunin sem við settum upp því við óttuðumst að þetta myndi gerast. [...] Það er engin ástæða að loka stærra svæði, gönguleiðin styttist bara að gosinu sem þessu nemur,“ segir Hjálmar.

Lögregla mun þó halda áfram að meta aðstæður og öryggi fólks við eldgosið. „Þetta er bara lifandi verkefni, við tökum ákvarðanir dag frá degi,“ bætir Hjálmar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert