„Í samningi sem þessum eru bara sigurvegarar“

Guðlaugur segir að mikið gleðiefni að búið sé að ganga …
Guðlaugur segir að mikið gleðiefni að búið sé að ganga frá fríverslunarsamningi við Breta. Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, var kampakátur þegar hann gekk út af ríkisstjórnarfundi í dag. Tekist hefur að ganga frá fríverslunarsamningi við Bretland, að miklu leyti í samvinnu við EES-ríkin. Samningaviðræður við aðildarríki samningsins kláruðust að miðnætti í gærkvöldi og var hann svo samþykktur af ríkisstjórninni í morgun.

„Það er mikið gleðiefni að búið sé að ganga frá þessu,“ sagði Guðlaugur en samningurinn hefur verið í vinnslu mjög lengi, allt frá því í september. Hann segir það mikilvægt fyrir Íslendinga að vera með tryggt viðskiptasamband við Bretland enda sé það næstmikilvægasta viðskiptaland Íslands. 

Varðandi það hve langan tíma samningaviðræðurnar tóku segir Guðlaugur að það sé í mörg horn að líta í svona víðtækum fríverslunarsamningum. Hann bendir einnig á að Bretar séu að semja við margar þjóðir á sama tíma og það auki flækjustig.

Guðlaugur segir helsta áhrifaþáttinn þó vera hve langan tíma það hefur tekið fyrir Bretland og Evrópusambandið að ná saman. 

Guðlaugur sagði að Ísland hafi ekki þurft að gefa neitt eftir í samningaviðræðunum. fyrst og fremst væri um að ræða samning sem er beggja hagur. „Í fríverslunarsamningi sem þessum eru bara sigurvegarar," bætti hann svo við. 

Helstu atriði samningsins lúta að vöruviðskiptum, en þar segir Guðlaugur að sjávarútvegurinn sé langmikilvægastur og framtíð hans sé tryggð með þessum samningi. Sömuleiðis sé áhersla lögð á frjálst flæði þjónustu og opinber útboð. Í samningnum eru svo umhverfismál og jafnréttismál tekin fyrir sérstaklega en þetta er í fyrsta skipti sem fríverslunarsamningur nær til jafnréttismála. 

mbl.is