Nýjasti fjölskyldumeðlimur Íslendinga goshverinn Kurteis

„Goshverinn uppgötvaðist þannig að ég var að grafa skurð í borholu við hliðina á holunni þar sem hverinn er núna,“ sagði Hannes Sigurðsson, bóndi á Reykjavöllum í Biskupstungum, í samtali við blaðamann mbl.is. „Þetta er gömul borhola sem var notuð fyrir um 30 árum, það var pínulítið vatn í henni og með tímanum var talið að þetta væri dautt en það hefur aldrei nokkurn tímann gosið.“

Hannes segist þá hafa hreinsað holuna þar til hann var kominn á 7 metra dýpi og ljóst var að fyrirstaða væri. Hann fer þá að láta deigan síga og fer í hádegismat er dóttir hans kemur og tilkynnir honum að það sé byrjað að gjósa.

„Ég var bara með tárin í augunum í morgun þegar ég vaknaði, ég eignaðist börn á sínum tíma og það er æðislegt og það að fá að eignast svona í lífinu líka er náttúrulega bara Guðsgjöf,“ sagði Hannes en ljóst er að honum þykir afar vænt um hverina.

Holurnar boraðar 1947-1949

Íslenskar orkurannsóknir stóðu fyrir rannsókn á hverinni og svæðinu í kring. „Þetta eru eldgamlar borholur sem voru boraðar 1947-1949 og bóndinn ætlaði sér að nýta eina þeirra en þær voru eitt sinn í nýtingu fyrir einhverjum 30 árum,“ sagði Heimir Ingimarsson, jarðfræðingur á vegum ÍSOR. „Hann hefur síðan hreinsað upp úr henni en það var fyrirstaða á 7 metra dýpi, þar setti hann rör og dældi lofti á holuna þannig að hún fór í gos, öllum að óvörum."

Gosstrókurinn sem um ræðir.
Gosstrókurinn sem um ræðir. Ljósmynd/Facebooksíða Hannesar

Þá sagði Heimir að hitinn fyrir neðan 7 metra sé yfir 100 gráður, hitinn þar hitar upp vatnssúluna frá 7 metrunum og upp yfir suðu og gýs af sér vatnssúlunni á 10-20 mínútna fresti. Strókurinn nær upp í allt að 15 metrum og stendur yfir í nokkrar sekúndur áður en vatnsborðið fellur, fyllir sig aftur, hitar vatnið upp yfir suðumark og gýs á ný.

„Það er óvanalegt að hafa svona gosholur í þessari virkni,“ sagði hann. Rannsóknir hafa verið gerðar á staðnum yfir tíðina en þó ekkert að viti síðustu 20 árin, samkvæmt Heimi. „Við fórum yfir svæðið og yfir gömul gögn ef ske kynni að hægt væri að nýta þetta svæði eitthvað meira í framtíðinni.“

Hlaut nafnið Kurteis

„Ég óskaði eftir fullt af tillögum að nafni fyrir hverina en fyrsta nafnið sem mér datt í hug þegar við tókum eftir að það væri farið að gjósa var Kurteis,“ sagði Hannes. „Með fyrstu gosunum feyktust grjót og þess háttar út um allt úr holunni og hverinn lét það ekki lenda á mér, þannig mér fannst hann vera svo rosalega kurteis.“

„Þetta er nýjasti fjölskyldumeðlimurinn, ekki bara minn heldur allra Íslendinga.“ Þá segir Hannes að þetta sé sameign allra Íslendinga og því ekkert til fyrirstöðu að forvitnir kíki á hann Kurteis. „Þetta er náttúrulega svo óundirbúið, ég er búinn að vera núna í dag og síðustu daga að forða þessu frá slysahættu, það er opið hérna og fólk getur alveg komið enda engin leið að loka fyrir það,“ sagði Hannes. „Það er þó hætt við að það geti verið þúsundir manna hérna sem væri bara hættulegt,“ bætti hann svo við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert