Sögulegur samningur Íslands og Bretlands í höfn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr fríverslunarsamningur Íslendinga og Breta er í höfn og tekur hann til allra þátta viðskipta milli ríkjanna. Bretland er einn stærsti útflutningsmarkaður Íslendinga og er því ljóst að um afar mikilvægan samning sé að ræða. 

Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, í tilkynningu stjórnarráðsins, að samningurinn muni skipta sköpum fyrir almenning og fyrirtæki á Íslandi. 

Utanríkis- og viðskiptaráðherrar Íslands, Bretlands, Noregs og Liechtenstein koma saman til fjarfundar í hádeginu til að staðfesta formlega að samkomulag hafi náðst framtíðarfríverslunarsamning. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Ursula von der Leyen, forseti …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Brussel í desember á síðasta ári, skömmu áður en Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu, þó með samningi þeirra á milli. AFP

Viðræður við Breta um fríverslunarsamning hófust í september á síðasta ári í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Bráðabirgðasamningur um vöruviðskipti tók gildi um áramótin en nú hefur fríverslunarsamningur náðst til framtíðar. Búist er við að samningurinn verði undirritaður á næstu vikum.

„Nýr fríverslunarsamningur við Bretland hefur verið forgangsmál í ráðherratíð minni og mun skipta sköpum fyrir bæði íslensk fyrirtæki og neytendur. Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu og ég er sannfærður um að þessi samningur muni styrkja efnahags- og vinatengsl Íslands og Bretland um ókomna tíð,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu.

Afar umfangsmikill samningur

Samningurinn er sagður afar umfangsmikill í samanburði við aðra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert. Meðal þess sem samningurinn tekur til eru ákvæði á sviði hugverkaréttinda, heilbrigðisreglna fyrir matvæli, tæknilegra reglugerða ríkisstyrkja, samkeppnismála, starfsumhverfis lítilla og meðalstórra fyrirtækja, góðrar reglusetningar og samtarfs á því sviði.

Ásamt því að veita Íslendingum mikilvægan aðgang að breskum mörkuðum, og öfugt, þá er að finna í samningi ríkjanna umfangsmiklar skuldbindingar á sviði loftslagsmála, sjálfbærni og jafnréttismála. 

„Ein helsta áhersla Íslands í viðræðunum um kaflann um sjálfbæra þróun og viðskipti var að kynjajafnrétti yrði gert hátt undir höfði, í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar. Það er því mikið gleðiefni að samningurinn inniheldur ákvæði um efnahagslega valdeflingu kvenna þar sem mikilvægi jafnréttismála og kynjasjónarmiða við framkvæmd hans er áréttað,“ er haft eftir  Guðlaugi Þór í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina