Draga ekki of miklar ályktanir af fyrstu tölum

Guðlaugur Þór og Áslaug Arna í Valhöll í kvöld.
Guðlaugur Þór og Áslaug Arna í Valhöll í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar

Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir eru sammála um að skemmtileg prófkjörsbarátta sé að baki en fyrstu tölur birtust klukkan 19. Guðlaugur leiðir í fyrsta sæti með einungis 98 atkvæða mun.

Eft­ir að 1.502 at­kvæði höfðu verið tal­in er Guðlaug­ur Þór í fyrsta sæti með 765 at­kvæði í fyrsta sætið og Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir í öðru sæti með 1.001 at­kvæði í fyrsta til annað sætið en þau tak­ast á um fyrsta sætið í próf­kjör­inu. 

Næstu tölur verða birtar klukkan 21 í kvöld og klukkan 23 (mögulega fyrr), að því er segir á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins. 

„Það hefur verið í mörg horn að líta hjá mér í þessari prófkjörsbaráttu,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is og nefnir í því sambandi norðurskautsráðið, njósnamál hjá Dönum og fríverslunarsamninginn við Breta. „Ég hef því þurft að reiða mig mikið á mitt góða stuðningsfólk.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, er í fyrsta sæti eftir fyrstu tölur.
Guðlaugur Þór Þórðarson, er í fyrsta sæti eftir fyrstu tölur. mbl.is/Sigurður Unnar

„Þetta eru auðvitað bara fyrstu tölur og þær hafa alltaf breyst. Þannig að það er engin ástæða til þess að draga of miklar ályktanir,“ segir Guðlaugur og bætir við að hann vonist bara eftir að fá fleiri atkvæði eftir því sem líður á kvöldið. 

Ánægð með mikla kjörsókn

„Þetta er bara stórt og flott prófkjör og gaman að sjá þessa miklu kjörsókn,“ segir Áslaug Arna. 

„Það er bara búið að telja lítið af atkvæðum svo maður bíður bara eftir lokaniðurstöðum,“ segir Áslaug en greidd voru 7.500 atkvæði.

„Ég hlakka mikið til baráttunnar í haust, sama hvernig fer,“ segir Áslaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert