„Hver ætlar að taka við skömminni?“

„Ég held að þetta hafi hreyft við mörgum körlum og …
„Ég held að þetta hafi hreyft við mörgum körlum og þeir hafi fundið fyrir þessu ákalli, að þeir ættu að vera að gera eitthvað í þessari baráttu,“ segir Steinunn um þá bylgju Metoo sem hófst í byrjun maí. mbl.is

Karlmenn hafa sýnt aukinn áhuga á að taka þátt í baráttunni gegn kynferðisofbeldi að undanförnu, að mati talskonu Stígamóta. Óvænt hafa margir tugir karlmanna haft samband við Stígamót í núverandi bylgju Metoo og telur talskonan að þeir hafi gert sér grein fyrir því að baráttan sé ekki eingöngu barátta kvenna.

Í fyrri bylgjum baráttunnar skiluðu þolendur kynferðisofbeldis skömminni frá sér en í yfirstandandi bylgju hefur tilraun verið gerð til þess að finna viðtakendur fyrir skömmina.

175 nýir skjólstæðingar höfðu samband við Stígamót í maímánuði, í kjölfar nýrrar bylgju Metoo. Er það rúmlega þrisvar sinnum meiri eftirspurn eftir þjónustu Stígamóta en í meðalmánuði.

„Nú erum við svolítið að vinna úr öllu sem kom fram í þessari bylgju,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, í samtali við mbl.is.

„Það eru náttúrlega mjög margir sem upplifðu erfiðar tilfinningar eða upplifðu að þau væru tilbúin í að opna á sín mál og leita sér hjálpar.“

Umræðan um gerendur ekki komin langt

Þá segir Steinunn að ýmislegt hafi komið fram í þessari bylgju Metoo sem samfélagið, stjórnvöld, aðgerðasinnar og fleiri séu nú að velta fyrir sér hvernig sé hægt að breyta. Steinunn segir að næstu skref séu þríþætt.

„Umræðan í kringum gerendur er ekki komin langt. Það er ýmislegt sem þarf að gera í því; það þarf að auka rannsóknir á því hvað gerendur upplifa, hvers vegna þeir beita ofbeldi. Ég veit að það er fólk þarna úti sem hefur áhuga á að stofna einhvers konar félagsskap eða samtök sem búa til rými fyrir gerendur ofbeldis til þess að leita sér aðstoðar,“ segir Steinunn.

„Ég held að það hafi öllum verið ljóst í þessari …
„Ég held að það hafi öllum verið ljóst í þessari bylgju að réttarkerfið er ekki staður sem veitir brotaþolum réttlæti,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Réttarkerfið veiti ekki brotaþolum réttlæti

Í öðru lagi telur hún að það þurfi að skoða það ofan í kjölinn hvernig réttarkerfið tekur á móti þolendum.

„Ég held að það hafi öllum verið ljóst í þessari bylgju að réttarkerfið er ekki staður sem veitir brotaþolum réttlæti. Fólk segir stundum að málin þurfi bara að fara sína leið í gegnum kerfið en við vitum alveg hver staðan er þar. Þú færð engan sannleika þannig séð út úr því að kæra málið þitt og fara með það í gegnum réttarkerfið vegna þess að mikill meirihluti mála er felldur niður. Það er ansi mikil vinna óunnin þar og ég vona að þessi bylgja hafi gert öllum það ljóst, bæði þeim sem vinna í réttarkerfinu og vinna að umbótum í réttarkerfinu og hafa með lagasetningu og stefnumótun að gera, að það þurfa að verða einhverjar róttækar breytingar þar ef þetta kerfi á raunverulega að vera það sem við styðjumst við til þess að veita þolendum ofbeldis réttlæti.“

Leiðir til réttlætis utan réttarkerfisins

Þá segir Steinunn að umræða hafi átt sér stað um leiðir til réttlætis fyrir brotaþola utan réttarkerfisins.  

„Það eru til hinar og þessar leiðir, uppbyggileg réttvísi, ábyrgðarferli fyrir gerendur. Það helst í hendur við þetta að gerendur ofbeldis gangist við brotunum sínum, þótt það sé ekki nema að horfast í augu við sjálfa sig og átta sig á því að það sem þeir gerðu var ofbeldi en ekki bara í lagi. Það er eitt skref fram á við ef það verða til einhver svona úrræði sem eru einhvers konar meðferð eða úrræði fyrir gerendur sem eru samt á forsendum brotaþola svo þetta verði ekki enn meiri gerendameðvirkni,“ segir Steinunn.  

Sú umræða sem hófst í byrjun maímánaðar um kynferðisofbeldi hefur áður komið upp í samfélaginu, síðast árið 2017 þegar Metoo komst í hæstu hæðir og þar áður árið 2015 þegar brotaþolar opnuðu sig um reynslu sína undir myllumerkjunum #Þöggun og #Konurtala. Aðspurð segir Steinunn að forverar núverandi bylgju hafi haft áhrif. Heilmikilli þolendaskömm hafi verið aflétt árið 2015.

„Metoo-bylgjan árið 2017 var aftur árétting á því hversu útbreiddur vandi þetta er. Við náðum ákveðnum árangri í því að það var samfélagslega viðurkennt að skila skömminni. Skömmin er ekki þolenda, o.s.frv. Það var bara enginn sem tók við henni vegna þess að það var svo mikil gerendameðvirkni og við vorum ekki tilbúin í að horfast í augu við það hverjir það eru sem beita ofbeldinu,“ segir Steinunn.

Mikill áhugi á meðal karlmanna á bandamannanámskeiði

Í þessari bylgju Metoo var nýtt skref tekið og stóra spurningin „hver ætlar að taka við skömminni?“ kom upp.

„Það var algjörlega óljóst og ég veit ekki hvort það tókst að svara henni núna. Ég held að það hafi verið krafan og kveikjan í þetta skiptið.“

Spurð hvort hún sé þegar farin að sjá breytingar á samfélaginu í kjölfar þeirrar bylgju Metoo sem hófst í byrjun maímánaðar segir Steinunn svo vera.

„Hingað á Stígamót fengum við óvænt mjög mikinn áhuga á bandamannanámskeiðunum okkar sem eru námskeið fyrir karla sem vilja beita sér gegn kynbundnu ofbeldi. Við vorum ekkert að auglýsa námskeiðið eða neitt slíkt. Það voru margir tugir manna sem höfðu samband. Þetta eru karlar sem vilja leggja sitt á vogarskálarnar. Þeir finna að þeir þurfa að taka þátt í þessari baráttu, að konur geta ekki tekið þessa baráttu einar,“ segir Steinunn og jafnframt:

„Mér fannst áhugavert að þeir fundu greinilega það sterkt fyrir ákallinu. Auðvitað eru þetta bara nokkrir tugir manna en þetta eru þeir sem tóku skrefið og höfðu samband við okkur að fyrra bragði til þess að spyrja um bandamannanámskeiðið og hvort þeir gætu verið með. Ég held að þetta hafi hreyft við mörgum körlum og þeir hafi fundið fyrir þessu ákalli, að þeir ættu að vera að gera eitthvað í þessari baráttu.“

„Það bara er ekkert svar við þessari spurningu“

Er mögulegt að svara spurningunni um það hvernig gerendur geta axlað ábyrgð og að brotaþolar upplifi réttlæti í kjölfar ofbeldis?

„Það bara er ekkert svar við þessari spurningu,“ segir Steinunn.

„Það er kannski svolítið verkefnið fram undan; hvernig sé hægt að mæta þörf brotaþola fyrir réttlæti þegar réttarkerfið hefur brugðist okkur gjörsamlega og samfélagið er gegnumsýrt af þessari meðvirkni með gerendum. Það er verkefnið. Auðvitað eru hugmyndir og þarfir brotaþola fyrir réttlæti ólíkar. Í samfélaginu sem við lifum í hefur það verið nánast ógerningur að finna leið til réttlætis. Það er verkefni stjórnvalda, fræðimanna, aktívista, allra þeirra sem láta málaflokkinn sig varða, að vinna áfram í þessari spurningu.“

Ósanngjarnt að krefja brotaþola um að segja sögur sínar í sífellu

Á síðustu dögum hefur bylgjan sem hófst í maí orðið sífellt minna áberandi. Steinunn segist vissulega hafa áhyggjur af því en að mjög sterk mynd hafi verið máluð upp af stöðunni.

„Það nýtist okkur til áframhaldandi vinnu og umfjöllunar. Mér þætti það ósanngjörn krafa á þolendur ofbeldis að þær þurfi endalaust, dag eftir dag, að segja sögurnar sínar til þess að halda okkur við efnið. Ég held að brotaþolar ofbeldis hafi sýnt það mjög skýrt hvert vandamálið er og kastað boltanum áfram til ýmissa annarra aðila að skoða málið áfram, hvernig sé hægt að bregðast við þessu, hvað sé hægt að gera.“

Eins og áður sagði leituðu 175 manns til Stígamóta í maímánuði en almennt leita 50 nýir til Stígamóta mánaðarlega.

„Það er engin leið að koma öllum þessum fjölda fyrir í viðtöl án þess að við grípum til aðgerða. Við erum í fjáröflun og samtali við stjórnvöld til þess að geta bætt við starfskrafti hjá okkur svo við getum komið fólki að hjá okkur sem allra fyrst  þannig að fólk þurfi ekki að bíða lengi þegar það er tilbúið til þess að opna á málin sín og leita sér hjálpar,“ segir Steinunn.

Hjá 112.is er að finna ýmis úrræði vegna ofbeldis, bæði fyrir þolendur og gerendur.

mbl.is