Miklar tilfinningar í spilinu

Baltasar Kormákur segir Kötlu eitt skemmtilegasta verkefni sem hann hefur …
Baltasar Kormákur segir Kötlu eitt skemmtilegasta verkefni sem hann hefur komið að. Lj´somynd/Lilja Jónsdóttir

„Þetta er mystería sem tengist áföllum fólks og sitthvað rifjast upp og skýrist eftir því sem sögunni vindur fram,“ segir Baltasar Kormákur um nýju sjónvarpsþættina sína, Kötlu. Hann velur orð sín af kostgæfni – vill að vonum ekki gefa of mikið upp áður en efnið verður áhorfendum aðgengilegt á streymisveitunni Netflix 17. júní. 

„Segja má að þarna mætist þrír heimar; guðstrúin, þjóðtrúin og vísindin og fólk nálgast þá á mismunandi hátt, út frá lífsviðhorfum sínum. Sagan er líka álögum undirorpin. Ég kýs að kalla þetta „psychological Sci Fi,“ segir hann sem myndi líklega útleggjast „sálfræðivísindaskáldskapur“ á íslensku. Mið sem sjaldan hefur verið róið á úr íslenskum höfnum. „Ég held ég geti fullyrt að ekkert þessu líkt hafi áður verið gert á Íslandi og ekki síst þess vegna er frábært að Netflix hafi haft svona mikinn áhuga. Auðvitað er þetta ekki ævisaga en sagan er samt sem áður mjög persónuleg og miklar tilfinningar í spilinu og hvaðeina sem við erum að fara gegnum í lífinu. Það eru forréttindi að fá að gera slíka hluti, hvað þá að fá verkefnið fullfjármagnað af svo stóru fyrirtæki.“

Guðrún Ýr Eyfjörð leikur aðalhlutverkið í Kötlu.
Guðrún Ýr Eyfjörð leikur aðalhlutverkið í Kötlu. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir


Katla hefir gosið í heilt ár

Baksvið þáttanna er eldgos; Katla byrjaði að gjósa og hefur gosið staðið án afláts í heilt ár – sem er án fordæma. Flestir eru flúnir af svæðinu, sem er lokað fyrir utanaðkomandi umferð, en fáeinar hræður hokra áfram undir öskufallinu í Vík og nágrenni, auk þess sem vísindamenn eru vitaskuld að störfum á fjallinu. Og skyndilega fara mælitæki þeirra að tala tungum, ef svo má að orði komast. Eitthvað undarlegt er á seyði. Í forgrunni eru feðginin Þór og Gríma, sem Ingvar E. Sigurðsson og Guðrún Ýr Eyfjörð leika, sem orðið hafa fyrir þungum áföllum. Eiginkona Þórs gekk í sjóinn þegar Gríma var ung og um það leyti sem eldgosið hófst hvarf Ása, systir hennar, sporlaust á fjallinu. Búið er að lýsa hana látna en Gríma heldur eigi að síður enn í veika vonina. Okkur hefur ekki fyrr borið að garði en að dularfullir atburðir fara að eiga sér stað. 

Baltasar kveðst ekki beint vera Sci Fi-maður sjálfur en hefur á hinn bóginn brennandi áhuga á öllu sem snýr að þjóðtrú, náttúrunni og draumum, ef út í það er farið. „Ég hef lengi gengið með það í maganum að gera eitthvað þessu líkt og meðal annars rætt þetta mikið við Sigurjón,“ heldur hann áfram og á þar við Sigurjón Kjartansson, einn handritshöfunda. „Það er eitthvað meira þarna úti, en bara það sem við skynjum og draumar eru hluti af raunveruleikanum. Það er alla vega mín sannfæring. Vonandi leiðir Katla til skemmtilegrar umræðu um þessa hluti, innanlands sem utan.“

Ingvar E. Sigurðsson er í stóru hlutverki manns sem kann …
Ingvar E. Sigurðsson er í stóru hlutverki manns sem kann vel við ketti. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir


Heiðarleiki og listrænt frelsi

Spurður um væntingar gerist Baltasar heimspekilegur. „Þetta getur orðið svaka smellur en líka ekki gengið. Og eflaust allt þar á milli. Aðalatriðið er að við vorum heiðarleg við gerð þessara þátta, fylgdum eigin sannfæringu. Þetta er gert af heiðarleika og miklu listrænu frelsi. Við gátum ekki gert þetta á annan hátt og stöndum fyrir vikið og föllum með því. Fjárhagslega skiptir þetta ekki öllu máli fyrir okkur heima en það blasir þó við að Netflix hlýtur að vera líklegra til að gera fleiri seríur hér á landi ef þessi gengur vel. Ég veit að það ríkir mikil eftirvænting hjá Netflix vegna Kötlu. Þættirnir fjalla auðvitað um fólk sem býr við mikla einangrun og mögulega tengir fólk betur við það núna eftir kórónuveirufaraldurinn en ella.“

Þess utan geta vinsældir verið seigfljótandi ferli, eins og við þekkjum. Ekki síst á risastórri efnisveitu eins og Netflix. „Það eru mörg dæmi um að þættir hafi ekki náð til fjöldans strax en slegið í gegn síðar. Það getur verið sitt hvað, vinsældir og vinsældir.“

Nánar er rætt við Baltasar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »