Sjómannadeginum víða fagnað

Spariklæddur. Jökull ÞH 299 komtil hafnar á Húsavík síðdegis í …
Spariklæddur. Jökull ÞH 299 komtil hafnar á Húsavík síðdegis í gær. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Sjómannadagurinn er á morgun, sunnudag. Lítið verður um stór hátíðarhöld á höfuðborgarsvæðinu vegna samkomutakmarkana. Mikið er þó um dagskrá á landsbyggðinni. Í Vestmannaeyjum hófst dagskrá á fimmtudaginn og hélt áfram í gær með kynningu á sjómannabjórnum 2021 auk ljósmyndasýningar Bjarna Sigurðssonar: 1000 andlit Heimaeyjar.

Í dag hefst dagskrá á dorgveiðikeppni á Nausthamarsbryggju, þar á eftir verður sjómannafjör á Vigtartorgi en þar verður kappróður, koddaslagur, tuðrukvartmíla, sjómannaþraut og Grímur kokkur með humarsúpu. Á sjómannadaginn sjálfan verða svo fánar dregnir að húni og afhjúpun á minnisvarða um þá sem fórust í Pelagus-slysinu. Klukkan 13 hefst svo sjómannamessan í Landakirkju. Séra Guðmundur Örn predikar og þjónar fyrir altari.

Eftir messuna verður minningarathöfn við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra en þar mun Lúðrasveit Vestmannaeyja leika nokkur lög undir stjórn Jarls Sigurgeirssonar. Í kjölfarið hefst svo hátíðardagskrá á Stakkó.

Í Bolungarvík er dagskrá alla helgina. Í gær var dorgveiðikeppni á Brimbrjótnum og í dag er ýmist hægt að skella sér í sund í sundlaug Bolungarvíkur eða fagna þriggja ára afmæli Víkurskálans. Leikhópurinn Lotta sýnir Pínulitlu gulu hænuna og lýkur deginum á djammi í Einarshúsi. Á sjómannadaginn hefst hópganga frá Brimbrjótnum að Hólskirkju og hátíðarguðsþjónustan þar hefst strax í kjölfarið.

Á Austurlandi má einna helst nefna dagskrá Neskaupstaðar. Dagskrá dagsins í dag hefst með kappróðri á hádegi. Hoppukastalar verða á bryggju neðan við kirkjuna og DJ Magic Maiken frá Danmörku í Beituskúrnum í kvöld. Samtímis verður gigg í lystigarðinum en Hlynur Ben treður þar upp. Á morgun hefst svo sjómannadagurinn sjálfur með sjómannadagsmóti GN og Gjögurs á Norðfjarðarvelli, skip og bátar draga íslenska fánann að húni og bæjarbúar eru hvattir til að flagga sem víðast.

Á Ólafsfirði fyrir norðan er kappróður og keppt um Alfreðsstöngina, grip sem fyrst var gefinn 1955 og margur sómadrengurinn hefur hampað. Knattspyrnuleikur milli sjómanna og landmanna verður á laugardag og um kvöldið brekkusöngur við Tjarnarbók. Á sjómannadag er skrúðganga að Ólafsfjarðarkirkju. Hátíðarmessa og sjómenn verða heiðraðir. Fjölskylduskemmtun og árshátíð sjómanna um kvöldið. Allt er þó minna í sniðum í ár vegna sóttvarnareglna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert