Annar öfugur og hinn á hvolfi!

Arnar Freyr Hjartarson veit fátt skemmtilegra en að hanna föt …
Arnar Freyr Hjartarson veit fátt skemmtilegra en að hanna föt og stefnir á frekara nám í fatahönnun. Tíska á hug hans allan. mbl.is/Ásdís

Stúdentsprófið er í höfn hjá Arnari Frey Hjartarsyni eins og þúsundum ungmenna sem útskrifuðust á síðustu vikum. Arnar Freyr fór ekki alveg dæmigerða leið því hann tók sitt stúdentspróf í fata- og textílhönnun frá listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Arnar er nú kominn í sumarvinnuna, en hann vinnur í 17 í Kringlunni þar sem vit hans á tísku kemur í góðar þarfir. 

„Ég hef alltaf haft skoðun á því hvernig ég klæði mig, allt frá því að ég var lítið barn. En tískuáhuginn kviknaði líklega í sjöunda, áttunda bekk. Í tíunda bekk ákvað ég að feta þessa braut,“ segir Arnar.

„Ég hef aldrei litið til baka eða séð eftir neinu.“

Langur listi af fyrirmyndum

Arnar er einn fjögurra nemenda sem útskrifuðust af þessari braut í ár.

„Skemmtilegast var að hanna eitthvað og fá svo að búa það til. Að fá að skapa eitthvað sem maður hafði í höndunum. Það var mikið frelsi til sköpunar í náminu; við fengum verkefni en höfðum svo frjálsar hendur við útfærslu hugmynda okkar, á meðan það féll innan ramma verkefnisins. Það hjálpaði mikið og í FG er mikil áhersla lögð á hönnunarhlutann,“ segir hann og segist líta á námið sem listnám frekar en aðeins að búa til föt.

Tristan Alejandro Castañeda, Brynjar Logi Halldórsson, Ólafur Arnar Jónsson, Mía …
Tristan Alejandro Castañeda, Brynjar Logi Halldórsson, Ólafur Arnar Jónsson, Mía Luly Johansen voru módel hjá Arnari Frey, sem stendur fyrir miðju. Ljósmynd/Aðsend

Hverjar eru fyrirmyndir þínar í tískuheiminum?

„Það er langur listi. Það eru margir sem standa upp úr. Hvað varðar hönnun hef ég mjög gaman af japönskum hönnuðum eins og Rei Kawakubo, líka Dries Van Noten og Ann Demeulemeester frá Belgíu. Tom Brown stendur upp úr. Ég hef gaman af þessum „avant-garde“-heimi,“ segir Arnar og segist hafa kafað djúpt í tískufræðin eftir að hann byrjaði í náminu fyrir þremur árum.

„Eftir að ég byrjaði í þessu hefur í raun lífið snúist um föt; vinnan, áhugamál, nám. Þetta er mitt helsta áhugamál og ég les mikið greinar um tísku og horfi á tískusýningar.“

Menningarkimi frá 1920

Hvað finnst þér skemmtilegast að hanna?

„Mér finnst alltaf mesti karakterinn og fjölbreytileiki í yfirhöfnum, eins og jökkum og frökkum. Ég lít oft til fínni klæðnaðar, eins og jakkafata og fínni frakka. En áhuginn er síbreytilegur,“ segir Arnar og segist ekki vita í hvaða átt hann ætli nú eftir útskrift úr menntaskóla.

„Ég sótti um í klæðskeranum en er ekki alveg viss með það; mögulega tek ég mér frí frá skóla í eitt ár og fer svo kannski utan í nám. Ég er heillaður af Belgíu, en margir góðir hönnuðir koma þaðan,“ segir Arnar og segist ætla að vinna við tísku í framtíðinni.

„Ég er opinn fyrir öllu og veit ekki hvort mig langar að vinna sjálfstætt eða fyrir fyrirtæki. Það fer svolítið eftir tækifærum.“

Kjóllinn er einn sá fyrsti sem Arnar hannar af kvenfatnaði …
Kjóllinn er einn sá fyrsti sem Arnar hannar af kvenfatnaði og fékk hann mikið hrós fyrir. Ljósmynd/Aðsend

Lokaverkefni Arnars var afar krefjandi, en hann hannaði og saumaði fjóra alklæðnaði.

„Aðallega var ég að fjalla um menningarkima sem myndaðist í New York árið 1920, en það var hópur „kross-dressera“. Ég fjallaði um hvernig þau þurftu að lifa í raun tvöföldu lífi og fela hvernig þau voru. Í dag telst þetta miklu eðlilegra. Ef þú sérð karlmann í kvenmannsfötum úti á götu í dag þykir það í lagi en árið 1920 var sá í lífshættu. Ég lærði um þetta í hönnunarsögunni og fannst það áhugavert,“ segir Arnar en hann ákvað þá að nýta sér söguna og hanna línuna, sem hann nefndi Proteus, fyrir lokaverkefnið.

Að finna lausnir á vanda

Hvaða litir og efni höfða mest til þín?

„Í þessari línu vann ég með ull en allar flíkurnar eru úr einhvers konar ull. Ég er mjög hrifin af grófari efnum og eins litum eins og jarðlitum. Dekkri litir, grár og brúnn, eru þeir litir sem ég leita oftast í,“ segir hann og segist oftast hanna föt sem hann sjálfur myndi vilja ganga í.
„Það er kostur og ókostur því það er auðvitað gaman að ganga í því sem maður hefur sjálfur hannað og saumað, en það takmarkar líka það sem maður vill gera og ég er að reyna að venja mig af því. Ég hef verið mikið í karlafötum en var núna í fyrsta skipti að prufa mig áfram með kvenföt. Ég saumaði fyrsta kjólinn minn fyrir lokaverkefnið, sem var mjög erfitt, en hann stendur upp úr og ég fékk mesta hrósið fyrir hann,“ segir hann og segist oft læra af mistökum. 

„Verstu mistökin voru kannski þegar ég var að gera frakka fyrir lokaverkefnið. Ég klúðraði báðum vösunum, á mismunandi hátt. Ég saumaði annan öfugan á og hinn á hvolfi! En það er það skemmtilega; að finna lausn á vandamálum.“

Nánar er rætt við Arnar Frey í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert