„Ég lendi alltaf í 6. sæti“

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þarna er ákveðin endurnýjun sem er alltaf jákvætt. Um leið er það þannig að prófkjörið sýnir að sitjandi þingmenn eru auðvitað ekki öruggir um sætin sín frekar en oft áður,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Hann segir niðurstöðu prófkjörsins vera sterkan hóp frambjóðenda.

Birgir, sem er þingflokksformaður, hafnaði í 6. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmunum en bauð sig fram í 2. til 3. sæti. Hann hafnaði sömuleiðis í 6. sæti í síðasta prófkjöri flokksins árið 2016 sem og fyrir alþingiskosningarnar árið 2013.

„Ég lendi alltaf í 6. sæti,“ segir Birgir og hlær. Hann segist alveg hefðu viljað vera ofar, en una niðurstöðunni. „Ég tek slaginn í samræmi við það sem sjálfstæðismenn í Reykjavík óska eftir,“ segir hann. Hann mun þiggja sætið sem hann hafnaði í samkvæmt prófkjöri. 

Spurður hvort hann telji sig í baráttusæti segist Birgir vera að vona að sætin fyrir aftan sig verði baráttusæti. 

Birgir kveðst bjartsýnn og segir Sjálfstæðisflokkinn eiga mikla sóknarmöguleika í haust. Hann segir þá þróun á kjörsókn í prófkjörum sem nú er staðreynd ánægjulega. Alls greiddu 7.493 atkvæði í prófkjörinu. Gild atkvæði í prófkjörinu eru 7.208. Auð og ógild atkvæði eru 285.

Ánægður með kjörsókn

„Við höfum séð þá þróun síðustu 15 árin að kjörsókn hefur heldur farið minnkandi í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins. Núna erum við að ná okkur töluvert til baka. Sú þróun að kjörsóknin sé að minnka, við höfum náð að snúa henni hressilega við, sem sést best á því að kjörsókn í ár var tvöfalt meiri en árið 2016,“ segir Birgir.

Gærkvöldinu varði Birgir með fjölskyldu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert