Einn besti árangur nýliða í prófkjöri

Diljá Mist Einarsdóttir hafnaði í þriðja sæti prófkjörsins.
Diljá Mist Einarsdóttir hafnaði í þriðja sæti prófkjörsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þakkar stuðningsmönnum sínum fyrir stuðninginn í prófkjöri flokksins sem lauk í gær. Hann gerir árangur Diljár Mistar Einarsdóttur, aðstoðarkonu sinnar í utanríkisráðuneytinu, í prófkjörinu að umtalsefni og segir þetta einn besta árangur sem nýliði hefur náð í prófkjöri flokksins frá upphafi.

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég þakka innilega fyrir stuðninginn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það er mér mikill heiður að finna fyrir trausti sjálfstæðisfólks til að leiða ákaflega öfluga sveit frambjóðenda í kosningunum í haust.

Ég óska Áslaugu Örnu til hamingju með góðan árangur og hlakka til að vinna áfram með henni í nafni sjálfstæðisstefnunnar til að gera Ísland betra og öflugra. Nú snúum við bökum saman og tryggjum Sjálfstæðisflokknum frábæra kosningu í haust.

Sjálfstæðisfólk í Reykjavík hefur valið öflugan og sigurstranglegan lista þar sem fer saman nýliðun og reynsla. Sérstaka athygli vekur árangur Diljár Mistar sem hlýtur afgerandi kosningu í þriðja sæti sem nýr frambjóðandi. Þetta er einn besti árangur nýliða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins frá upphafi. Frá dýpstu hjartarótum þakka ég mínu ómetanlega stuðningsfólki fyrir að hafa lagt nótt við dag í þessari baráttu. Ég á ykkur allt að þakka,“ skrifar Guðlaugur Þór á facebooksíðu sína.

Guðlaugur Þór Þórðarson varð efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík með 3.508 atkvæði þegar öll atkvæði hafa verið talin.

Í öðru sæti er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra  með 4.912 atkvæði í 1.-2. sæti.

Í þriðja sæti er Diljá Mist Einarsdóttir með 2.875 atkvæði samanlagt í 1.-3. sæti.

Í fjórða sæti er Hildur Sverrisdóttir með 2.861 atkvæði samanlagt í 1.-4. sæti.

Í fimmta sæti er Brynjar Níelsson með 3.311 atkvæði samanlagt í 1.-5. sæti.

Í sjötta sæti er Birgir Ármannsson með 4.173 atkvæði samanlagt í 1.-6. sæti.

Í sjöunda sæti er Kjartan Magnússon með 3.449 atkvæði samanlagt í 1.-7. sæti.

Í áttunda sæti er Friðjón R. Friðjónsson með 3.148 atkvæði samanlagt í 1.-8. sæti.

Alls greiddu 7.493 atkvæði í prófkjörinu. Gild atkvæði eru 7.208. Auð og ógild atkvæði eru 285.

Sjá nánar hér

mbl.is