Gasmengun aukist síðustu tvo daga

Hraunið rennur niður í Nátthaga.
Hraunið rennur niður í Nátthaga. mbl.is/Guðlaugur Albertsson

Gasmengun á gossvæðinu hefur aukist síðustu tvo daga. Hún virðist þó ekki vera komin yfir hættumörk enn sem komið er og því óhætt fyrir ferðamenn að skoða eldgosið.

Annars segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, allt vera við það sama. „Það rennur þarna falleg á niður í Nátthaga eins og sést á myndavélum,“ segir hann.

Suðaustlæg átt er á gossvæðinu og berst gasið því meira í átt frá gönguleiðinni. Eftir hádegi á morgun er spáð suðvestlægari átt, sem þýðir að það mun blása meira í áttina að gönguleiðinni.

Böðvar bendir þó á að gasið sé mest við hraunárnar.

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Einar Falur

Sýnir að hönnunin virkar

Í gær byrjaði að flæða yfir vestari varnargarðinn á svæðinu fyrir ofan Nátthaga. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir báða varnargarðana standa ennþá. Það gefi vísbendingar um að hönnunin virki.

„Sumir hafa talað um að garðarnir hafi rofnað en það er ekki, þeir halda en það er bara að flæða yfir þá. Það var svolítið sem við vissum ekki hvernig myndi þróast,“ segir Rögnvaldur.

Hraunelfur í Geldingadölum í apríl.
Hraunelfur í Geldingadölum í apríl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gönguleiðin gæti lokast

Syðst í Geldingadölum hefur hraunið hækkað og lítið vantar upp á að það komist suður úr dalnum yfir skarðið og niður í Nátthaga, að því er kemur fram á facebooksíðu Jarðsöguvina. Lítil viðbót af hrauninu gæti því lokað gönguleið A og þar með aðgengi að gosinu.

Rögnvaldur segist vita af þessu og viðbúið að hraunið komist yfir skarðið á einhverjum tímapunkti. „Við erum að skoða til lengri tíma hvaða ráðstafanir við getum gert aðallega gagnvart Suðurstrandarveginum en það er engin niðurstaða komin,“ segir hann.

Varðandi gönguleiðina segir hann að finna þurfi nýja leið ef það fer að flæða yfir til suðurs úr Geldingadal en ómögulegt sé að segja til um hvenær það gæti gerst.

mbl.is/Einar Falur
mbl.is

Bloggað um fréttina