Gerir ekki kröfu um sæti á listanum

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl/Arnþór Birkisson

Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að láta kjörnefnd flokksins vita að hún gerir enga kröfu um sæti á framboðslista flokksins fyrir næstu alþingiskosningar. Sigríður var ekki meðal átta efstu í prófkjörinu sem fram fór í Reykjavík og lauk í gær.

Leggur sjálfstæðisstefnunni lið hvar og hvenær sem er

„Ég hef alltaf verið þakklát fyrir þann góða stuðning sem sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa veitt mér í þingprófkjörum flokksins undanfarin 15 ár. Það á ekki síst við um fjölmennt prófkjör sem lauk í gær.

Maður þakkar auðvitað kærlega fyrir það þegar nokkur þúsund merkja við mann á kjörseðli þótt það hafi ekki dugað til að ná þeim árangri sem að var stefnt að þessu sinni. Ég mun láta kjörnefnd flokksins, sem vinnur úr niðurstöðunni, vita að ég geri enga kröfu um sæti á framboðslista flokksins.

Sem fyrr verð ég tilbúin til að leggja sjálfstæðisstefnunni lið hvar og hvenær sem er. Hún sameinar íhaldssemi og frjálslyndi á svo fallegan hátt. Ég óska Guðlaugi Þór og Áslaugu Örnu til hamingju með skýrt umboð til að leiða framboðslista flokksins í borginni. Diljá Mist og Hildur mega sömuleiðis vera stoltar af árangrinum,“ skrifar Sigríður á facebooksíðu sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert