Mikið áfall fyrir foreldra að heyra af ofbeldinu

mbl.is/Hari

Það er oft mikið áfall fyrir aðstandendur þolenda kynferðisofbeldis að heyra af því að ástvinur þeirra hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þá flækir það málin verulega þegar gerandinn er ættingi en það er gjarnan tilfellið.

„Það er mikið áfall fyrir foreldra, jafnvel þótt börnin þeirra séu uppkomin, að heyra af því ofbeldi sem barnið þeirra hefur orðið fyrir. Það þarf oft ekki mörg viðtöl, bara að hitta fagaðila, setja þetta í rétt samhengi og aðstoða þau við að vera sem best til staðar fyrir brotaþola,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta í samtali við mbl.is.

Töluverður fjöldi frásagna fólks, aðallega kvenna, af kynferðisofbeldi sem það hefur verið beitt hefur litið dagsins ljós að undanförnu í svokallaðri annarri bylgju Metoo.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðbrögð aðstandenda skipta mjög miklu máli

Aðstandendur geta leitað til Stígamóta og segir Steinunn það skipta verulega miklu máli hvernig aðstandendur bregðast við.

 „Viðbrögð aðstandenda skipta mjög miklu máli varðandi úrvinnslu brotaþola á afleiðingum ofbeldisins. Að finna að sér sé trúað, að sambandið haldist óbreytt við aðstandandann og að viðkomandi sé tilbúinn til að standa með brotaþolanum skiptir miklu máli. Hér á Stígamótum starfa tveir fjölskyldufræðingar. Við bjóðum velkomna aðstandendur fullorðins fólks, til dæmis maka, foreldra og uppkomin börn, en líka foreldra barna. Við hittum ekki börn hér á Stígamótum en ef börn hafa sagt frá og eru að fara í gegnum Barnahús eða barnaverndarkerfið þá eru foreldrarnir hjartanlega velkomnir hingað.“

Aðstandendur upplifa væntanlega oft erfiðar tilfinningar þegar þeir komast að því að ástvinir þeirra hafi verið beittir kynferðisofbeldi?

„Það getur verið allur skalinn. Það er vel þekkt að gerandinn sé innan fjölskyldunnar líka. Það flækir málin þegar gerandinn er bróðir þinn eða frændi þinn eða hitt barnið þitt. Það getur verið alls konar. Ég hvet fólk eindregið til þess að leita aðstoðar þegar þannig er í pottinn búið. Aðstandendur upplifa oft mikla ábyrgð á því sem gerðist og skömm yfir því sem gerðist. Þá er bara gott að hitta fagaðila til þess að fara yfir það og reyna að setja réttan merkimiða á það sem gerðist,“ segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert