Vill rannsókn á andláti í kjölfar bólusetningar

Trausti Leósson.
Trausti Leósson. Mynd/Skjáskot af vef RÚV

Fjölskylda konu sem lést sólarhring eftir að hafa verið bólusett með AstraZenca vill láta rannsaka hvort bóluefninu sé um að kenna.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Andlátið var strax tilkynnt til Lyfjastofnunar og láta stofnunin, landlæknir og sóttvarnalæknir gera rannsókn á fimm andlátum í kjölfar bólusetninga.

Trausti Leósson, sem er 74 ára, og konan hans Þyri Kap Árnadóttir fóru í fyrri sprautu 26. mars. Eftir að Trausti fékk boð um að fara í seinni sprautuna á miðvikudaginn skoðaði hann síma Þyri og sá að hún hafði líka fengið boð þrátt fyrir að hafa látist sólarhring eftir að hún fékk fyrri sprautuna.

Þyri, sem var 72 ára, var vel metinn dönskukennari, síðast í MR og í fullu fjöri.

„Kvöldið áður en hún fór í bólusetningu þá sagði hún: Ég geri það sem til er ætlast af mér í kerfinu en ef einn af mörg þúsund þolir ekki þetta bóluefni þá er voða leiðinlegt að vera sá eini,“ sagði Trausti.

Hún kvartaði undan beinverkjum, var með litla matarlyst og svaf lítið eftir að hún var sprautuð. Daginn eftir fór hún í bað vegna þess að henni var kalt. Þar kom Trausti að henni meðvitundarlausri.

Reynt var að endurlífga hana á bráðamóttökunni í tvær klukkustundir án árangurs.

Trausti sendi umboðsmanni Alþingis lýsingu á því sem gerðist. Óháð nefnd lyflækna tilkynnti í framhaldinu að hún myndi rannsaka fimm andlát og fimm tilkynningar um blóðtappa í kjölfar bólusetninga.

Fjölskyldan vill að ef það kemur í ljós dauði Þyri sé bóluefninu að kenna sé það gert opinbert þannig að fólk geti afþakkað bólusetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert