Alþingi mun sitja að minnsta kosti út vikuna

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. Enn …
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar. Enn er samið um þinglok og mörg mál enn í hörðum hnút. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég myndi segja að þó það sé nú ekki komin niðurstaða þá séu mál nú aðeins farin að skýrast, segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Þingflokksformenn funduðu tvisvar í dag um þinglok án niðurstöðu. Aftur verður þó fundað á morgun eftir að þingflokkar funda sín á milli.

„Örlög mála ráðast svolítið hvort af öðru þannig við þurfum að skoða þetta í samhengi áður en við beinlínis strikum einhver mál út eða ákveðum að geyma þau eða kæla,“ segir Birgir.

„Við erum með á borðinu nokkra tugi stjórnarfrumvarpa sem eru búin að fá verulega góða og ítarlega umfjöllun í nefndum þingsins. Flest af þessum málum eru afgreidd í tiltölulega góðu samkomulagi. Svo standa auðvitað útaf nokkur mál sem eru erfiðari sem eru flóknari eða ágreiningsmál,“ segir hann.

Alþingi mun sitja að minnsta kosti út vikuna.
Alþingi mun sitja að minnsta kosti út vikuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurður um hvort um væri að ræða ágreiningsmál milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu eða ríkisstjórnarinnar innbyrðis segir Birgir allur gangur vera á því. „Það getur hvoru tveggja átt við. Í sumum málum eru einhver atriði þar sem skoðanir geta verið skiptar milli stjórnarflokkana. Í öðrum málum eru atriði erfiðari gagnvart stjórnarandstöðunni,“ segir hann en ágreiningur stjórnarflokka um miðhálendisþjóðgarð hefur lengi verið áberandi.

„Það er of snemmt að segja til um hvenær þinginu lýkur. Ég myndi áætla að við þurfum nokkra daga í viðbót,“ segir hann og bætir við: „Það er búið að taka starfsáætlun Alþingis úr sambandi. Áætlunin sem gerði ráð fyrir því að við myndum klára á fimmtudaginn er fallin úr gildi, þannig að núna er fundað eftir þörfum.“

Nokkur mál í hörðum hnút

„Hvort sem málin klárast núna fyrir helgi eða eftir hana þá býst ég við að við náum að klára flestöll mál á okkar borði en spurningin er ennþá með nokkur mál sem eru enn í hörðum hnút. Ef þeir hnútar leysast þá er hægt að ganga mjög hratt til verka með restina af málunum,“ segir hann.

Inntur eftir hver helstu málin séu segir hann að nefna megi nokkur dæmi án þess þó að listinn sé tæmandi. Sú dæmi séu meðal annars mál um hálendisþjóðgarð, rammaáætlun, útlendingamál, fjarskiptamál, mál um vexti og verðtryggingu og mál um afglæpavæðingu fíkniefna að hans sögn. „Það er líka alveg óljóst hvernig fer með stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur. Það er ekki ríkisstjórnarmál heldur þingmannamál Katrínar og það eru skiptar skoðanir um marga þætti þess,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina