Fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu í tæknivanda

Ferðamenn í Reykjavík.
Ferðamenn í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seðlabanki Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök ferðaþjónustunnar hafa nú til skoðunar vandamál vegna bókana erlendra viðskiptavina ferðaþjónustufyrirtækja á netinu. 

Erlendir ferðamenn hafa margir hverjir ekki getað bóka gistingu eða afþreyingu hér á landi í gegnum vefsíður ferðaþjónustufyrirtækja vegna 3D Secure staðfestingaraðferðarinnar. 

Laufey Guðmundsdóttir, eigandi Glacier Journey, segir fyrirtæki sitt hafa beðið tjóns vegna málsins. Svo gott sem allir viðskiptavinir Glacier Journey sem reynt hafa að bóka þjónustu hjá fyrirtækinu á netinu síðustu daga hafa ekki getað það. 

„Ég er búin að bóka fjórtán bókanir bara í morgun hjá þeim sem geta ekki greitt, ætli þær séu ekki upp á allavega 40, 50 manns bara fyrir hádegið,“ segir Laufey. 

Ekki er vitað hvar vandinn liggur en málið er til skoðunar og bókunar- og kortafyrirtæki leita lausna. 

„Við vitum ekki hvað þetta er, hvort þetta sé í bókunarkerfunum eða hvort þetta sé hjá kortafyrirtækjunum. Seðlabankinn og Samtök fjármálafyrirtækja eru að funda um þetta í dag og við vonum að við fáum þá einhverjar skýringar,“ segir Laufey, en villan virðist hafa komið upp fyrir nokkrum vikum. 

„Það eru svona þrjár, fjórar vikur síðan þetta byrjaði en þetta virðist bara vera að aukast. Nú getur nánast enginn bókað, alveg sama hvaðan hann er,“ segir Laufey og bætir við að ekki hafi sambærilegur vandi komið upp áður við bókanir. 

Fái enga tryggingu 

Hún segir mikil óþægindi stafa af villunni. Aukin vinna felst í því að þurfa að bóka viðskiptavini í gegnum síma eða tölvupóst, fyrirtækið fái þá ekki tryggingu fyrir þeim viðskiptavinum auk þess sem einhverjir hætti eflaust við að bóka þjónustuna. 

„Svo hringir fólk í sitt kortafyrirtæki eða sinn banka og þá er þeim jafnvel sagt að bóka ekki því þetta séu gervifyrirtæki. Við erum að verða alveg fyrir tjóni. Svo erum við að bóka út í loftið og höfum enga tryggingu fyrir því að fólk komi, erum búin að taka frá sæti en vitum ekki hvort fólk skili sér. Það er ýmislegt sem hangir á spýtunni í þessu,“ segir Laufey og bætir við að sérstaklega hafi borið á erfiðleikum hjá viðskiptavinum frá Ísrael og Bandaríkjunum. 

Laufey segir að fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustunni hafi lent í vandræðum vegna villunnar. Einhver fyrirtæki virðast hafa fundið lausn við vandanum, að minnsta kosti að hluta. Þá segist Laufey hafa fengið bókanir frá endursöluaðilum. „Þar virðist þetta alveg fara í gegn, ég veit ekki af hverju,“ segir Laufey. 

„Það er alveg nóg að þurfa að díla við það á annað ár að fólk geti ekki ferðast, að þurfa ekki líka að díla við það að fólk geti ekki bókað. Það er alveg hörmungin ein,“ bætir hún við. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ljóst að vandamálið sé verulega útbreitt en bundið við erlend greiðslukort. Leysa þurfi úr því tafarlaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert