Þjarmað að Katrínu á þingi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Arnþór

Allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, nema Flokks fólksins, beindu spjótum sínum að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.  

Var til þess fyrstur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sem spurði forsætisráðherrann hvort að stjórnarmeirihlutinn hygðist leggja fram nýtt þingmál um Miðhálendisþjóðgarð í formi þingsályktunartillögu. 

Katrín sagðist ekki geta sagt til um hver niðurstaða umhverfis- og samgöngunefndar yrði. Hún sagðist átta sig á því að töluvert mörg álitamál væru í kring um afgreiðslu málsins.

Er málþóf? 

Yfir standa síðustu dagar þingsins samkvæmt starfsáætlun en fjölmörg stjórnarmál standa ókláruð. Yfir standa svokallaðir þinglokasamningar þar þingflokksformenn semja um framgang ákveðinna mála áður en til þingloka koma. 

Samkvæmt heimildum mbl.is eru þinglokasamningar skammt á veg komnir og eru sem stendur áberandi margir stjórnaraðstöðuþingmenn á mælendaskrá um þingmál sem er talið nokkuð óumdeilt. 

Líklegt er að með þessu láti stjórnarandstaðan glitta í málþófsspilið sem alltaf er hægt að grípa í ef samningar ganga erfiðlega. 

Næst spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Katrínu út í stjórnarskrárbreytingar, sem fyrir liggja á þinginu. Þorgerður hvatti Katrínu til að „nýta sína pólitísku inneign til að fá hennar kæru vini í Sjálfstæðisflokknum til að skipta um skoðun“. 

Lætur Þorgerður þannig að því liggja að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki afgreiða frumvarp Katrínar um stjórnarskrárbreytingar. 

Styrt á milli fyrrum félaga

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi félagi Katrínar í Vinstri grænum, var næst í röðinni í fyrirspurnum og innti Katrínu eftir svörum við því hvort að ekki mætti telja þá staðreynd að miðhálendisþjóðgarður verði ekki að veruleika eftir kjörtímabil undir hennar stjórn, sé ekki einstakur ósigur. 

Katrín var ekki sammála Rósu og sagði málflutning hennar litast af aðskilnaði hennar við flokk sinn, Vinstri hreyfinguna grænt framboð; „En mig grunar nú að þessi stóryrði háttvirtan þingmanns eigi líka rætur að rekja til fyrrum veru hennar í okkar hreyfingu. Og ég vil segja það að ég held að í þessu máli ættum við umhverfisverndarsinnar fremur að leggja kraftana saman en að koma hér upp með gífuryrði,“ svaraði Katrín.

Rósa sagði tilsvör Katrínar ódýr í seinni ræðu sagði hana þurfa að viðurkenna að málið væri strand vega ósamstöðu innan stjórnarflokkanna. 

Katrín sagði þá í síðara andsvari sínu að Rósa Björk væri að kasta steinum úr glerhúsi þegar hún segði sín ummæli ódýr. 

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var síðastur í pontu stjórnarandstöðu þingmanna og spurði einnig út í fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar. Spurði hann Katrínu hvers vegna ekki sé kveðið á um tímabundinn nýtingarrétt á auðlindum í tillögum hennar.

Sagði Katrínu þjónka fjárhagslegum hagsmunum  

Ég get nefnilega einungis ímyndað mér eina ástæðan fyrir því að það er lögð fram einhver málamiðlun í þessu, það er til að þjónkast þeim fjárhagslegu hagsmunum sem standa að baki Sjálfstæðisflokknum. Önnur rök þekki ég ekki,“ sagði Helgi Hrafn. 

Katrín sagði ásökunin fráleita: „Mér finnst þetta auðvitað fráleit ásökun sem hann kemur með hér. Ég fór ítarlega yfir þetta ákvæði og þetta frumvarp þegar ég mælti fyrir málinu og þá voru raunar sams konar sjónarmið uppi, um að ég væri hér að þjóna annarlegum hagsmunum,“ sagði Katrín. 

Ég hef sagt það skýrt að mér finnist merkingin í þessu ákvæði vera sú að þessar heimildir verði ekki afhentar varanlega, í merkingunni: Þær hljóta þá að vera tímabundnar eða uppsegjanlegar [...]  Ég bið bara háttvirtan þingmann að virða það við mig að telja það ekki að ég sé hér að ganga erinda annarlegra hagsmuna,“ útskýrði Katrín. 

„Mér þykir mjög leitt að það líti þannig út, en ég verð nú bara að biðja hæstvirtur ráðherra um að eiga það við sig að hún sé í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og hafi til þess þurft að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, eins og hún hefur orðað það, og dásamað þær málamiðlanir sem hafi þurft að gera,“ sagði Helgi Hrafn í seinni ræðu sinni. 

mbl.is