„Alltaf vonbrigði þegar markmið nást ekki“

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hefði náttúrulega viljað að það hefði verið klárað. En úr því sem komið var er þó fínt að við séum að fela ráðherranum að vinna áfram að málinu og koma með nýtt mál. Þannig höldum við málinu lifandi.“

Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna kemst svo að orði, spurður út í örlög frumvarps ríkisstjórnarinnar um stofnun hálendisþjóðgarðs. Umhverfis- og samgöngunefnd þingsins vísaði málinu síðdegis í dag aftur til ríkisstjórnarinnar. Það verður því ekki að veruleika á þessu kjörtímabili.

Kolbeinn var framsögumaður frumvarpsins.

„Umhverfisráðherra er með þessu falið að vinna að málinu og halda áfram þeirri vinnu sem er í raun búin að vera hjá þremur síðustu umhverfisráðherrum, frá 2015, og taka afstöðu til ýmissa álitamála sem upp hafa komið á þessum árum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Stemning í að fara frjálslega með innihald frumvarpsins

Eru þetta ekki vonbrigði?

„Það eru alltaf vonbrigði þegar markmið nást ekki. En ég ber þá von í brjósti að með þessu fari vinnan ekki í súginn heldur nýtist hún í áframhaldandi vinnu. Það er nú beinlínis, eins og ég hef lýst, kveðið á um að það eigi að nýta allt þetta í áframhaldandi vinnu. Það fer ekkert í súginn heldur nýtist og verður þá vonandi til þess að samstaða náist um málið.“

Voru viðbrögðin við frumvarpinu harkalegri en þú hafðir átt von á?

„Að einhverju leyti. Og að einhverju leyti fannst mér ýmsir leyfa sér að fara ansi frjálslega með bæði það sem væri í frumvarpinu og það sem frumvarpið myndi breyta.

Það varð einhver stemning í því, þar sem málflutningur byggði nú ekki alltaf á staðreyndum. Ég er nú svo auðtrúa að ég vil alltaf að málflutningur byggi á staðreyndum. En nú vonum við að þessi afgreiðsla haldi þessu lifandi þannig að fólk geti rætt þetta saman í meiri rólegheitum, og náð sátt um þetta mikilvæga mál.“

Ekki margir á móti þjóðgarði

Finnst þér líklegt að þetta nái í gegn á næsta þingi, að loknum kosningum?

„Mér finnst það. Ég er nú einn af líklega örfáum, án þess að ég viti það, sem hafa lesið hvern einasta stafkrók í hverri einustu umsögn sem hefur komið inn um málið, sem framsögumaður málsins.

Ég hef talað við ótrúlega marga af þeim sem sendu inn umsagnir. Ég hef talað við sveitarfélög og haldið fundi með þeim víða. Og ég hef ekki hitt rosalega mörg sem eru bara yfir höfuð á móti þjóðgarði, punktur.

Þannig að ég er bjartsýnn á að við getum nýtt alla þá vinnu sem búið er að fara í núna, haldið áfram samtalinu og að það náist sátt um þetta þjóðþrifamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert