„Áríðandi tilkynning“ til fólks sem ekki fékk boð

Bólusetning í Laugardalshöll.
Bólusetning í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mun meiri aðsókn er í bólusetningar með bóluefni AstraZeneca en gert var ráð fyrir. Vegna þess verða þeir frá að hverfa sem ætluðu að freista þess að fá seinni sprautu AstraZeneca, en fengu ekki formlega boðun þar um. Þeir sem ekki hafa fengið boð með sms-smáskilaboðum geta komið í dag eftir klukkan 14.

Þetta kemur fram í „áríðandi tilkynningu“ frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir sem hafa fengið formlegt boð í bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í dag eru því velkomnir, aðrir sem hafa fengið fyrri skammt AstraZeneca en hafa ekki fengið formlega boðun í seinni sprautu verða að bíða örlítið lengur.

Þeir sem beðið hafa lengur fá sprautu fyrst

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir við mbl.is að fleiri hundruð manns hefðu komið í morgun til þess að freista þess að fá AstraZeneca og því hafi þurft að bregða á þetta ráð. 

„Já, það komu það margir að við verðum bara að reyna að klára þá sem hafa fengið boð og fengu AstraZeneca fyrir jafnvel allt að níu vikum síðan. Þeir sem fengu AstraZeneca fyrir skemmri tíma sína, til dæmis fjórum vikum síðan, þeir hafa ekki fengið formlegt boð og því getum við ekki bólusett það fólk fyrr en við klárum þá sem hafa beðið lengur,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

Hún segir jafnframt að um 6 þúsund manns hafi fengið boð í seinni sprautu með AstraZeneca í dag en að um 20 þúsund manns gætu fengið seinni sprautu. Ekki fengust nægilega margir skammt af af bóluefninu í dag til þess að bólusetja alla þessa 20 þúsund. 

Reynt verður að klára þá sem fengu formlega boðun fyrir klukkan 14 í dag og eftir það verður þeim velkomið, sem ekki fengu formlega boðun í dag, að freista gæfunnar. 

AstraZeneca verður í boði aftur að tveimur vikum liðnum og gefst þá tækifæri til þess að fá bóluefnið. Í tilkynningu frá heilsugæslunni segir að virkni bóluefnisins lengist eftir því sem lengri tími líður milli skammta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert