Dæmdur fyrir slæman aðbúnað í búseturými

Héraðsdómur Reykjaviíkur.
Héraðsdómur Reykjaviíkur. mbl.is/Ófeigur

Eigandi starfsmannaleigunnar 2findjob ehf., var í dag dæmdur til 5 mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir aðbúnað í búseturými starfsmanna hans eigin starfsmannaleigu. Húsnæðið var staðsett á Smiðshöfða 7 og hýsti 24 starfsmenn um þriggja mánaða skeið. Sakborningur hafði hvorki fengið tilskilin leyfi né fylgt nauðsynlegum ráðstöfunum varðandi brunvarnir.

Í húsnæðinu var engin brunahólfun, flóttaleiðir voru taldar ófullnægjandi og veggir gistirýma úr auðbrennanlegu efni. Ástand raflagna var samkvæmt ákæru héraðssaksóknara „óásættanlegt“ og skapaði eldhættu, önnur starfsemi í húsinu var einnig talin fela í sér íkveikjuhættu.

Dómurinn hefur ekki verið birtur en eigandinn var ákærður fyrir að hafa stofnað starfsmönnum sínu í hættu og þannig brotið gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Sú málsgrein kveður á um að sá sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofni lífi eða heilsu annarra í augljósan háska skuli sæta fangelsi allt að 4 árum.

Ásamt því var háttsemi sakbornings talin varða við fjölda lagagreina um brunavarnir auk reglugerða um eldvarnar- og byggingaeftirlit.

Verjandi mannsins vildi ekki tjá sig um dóminn fyrr en hann hefði hann í höndunum en gerði athugasemdir við rannsókn málsins. Þá sérstaklega að fallið hefði verið frá rannsókn á eigendum húsnæðisins, Smiðshöfða 7.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert