Engin kvöldvaka í fyrsta sinn í 31 ár

Frá TM-mótinu í Eyjum í fyrra.
Frá TM-mótinu í Eyjum í fyrra. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Engin kvöldvaka verður haldin á TM-mótinu í Eyjum í ár og er þetta í fyrsta sinn síðan Pæjumótið hóf göngu sína árið 1990 sem henni er aflýst, eða í 31 ár.

Ástæðan fyrir því eru fjöldatakmarkanir til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Núna mega 150 koma saman og eru fótboltastelpurnar með í þeirri tölu, en í fyrra máttu 200 koma saman og þá töldu grunnskólabörn ekki með. Fyrir vikið verður enginn viðburður haldinn í íþróttahúsinu. Engin hæfileikakeppni verður þar á fimmtudagskvöld, engin kvöldvaka á föstudagskvöld og ekkert lokahóf á laugardagskvöld.

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Flóknari skipulagning

Sigríður Inga Kristmannsdóttir mótsstjóri segir skipulagninguna flóknari fyrir vikið en fyrsti leikurinn verður flautaður á klukkan 8.20 í fyrramálið. Hæfileikakeppnin, sem hefur verið á fimmtudagskvöldum, verður haldin á netinu. Stelpurnar eru búnar að senda inn myndbönd og hægt verður að horfa á þau á netinu. Sigurvegararnir verða síðan heimsóttir og verðlaunin afhent eftir að dómarar hafa kveðið upp sinn úrskurð. Í stað lokahófsins í  íþróttahúsinu á laugardagskvöldinu verður verðlaunaafhendingin úti á fótboltavelli eftir að leikjunum lýkur á laugardeginum.

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Okkur finnst mjög leiðinlegt að geta ekki boðið upp á þetta fyrir stelpurnar en svona er þetta bara núna. Við verðum bara að vinna út frá því,“ segir Sigríður um viðburðina sem hafa venjulega verið í íþróttahúsinu.

„Það eru allir af vilja gerðir að gera allt fyrir stelpurnar þannig að þær fái að upplifa að koma á mótið. Við erum að reyna að halda eðlilegri dagskrá en samt í breyttri mynd.“

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Engir foreldrar í sóttvarnahólfin 

Landsleikirnir tveir munu sem fyrr fara fram en vegna fjöldatakmarkana verða þeir á sitt hvorum tímanum. Helmingur áhorfenda getur því farið og horft á landsleik á með hinn horfir á BMX-hjólasýningu utandyra. Eftir það skiptir fólk um stað.

Foreldrar mega horfa á leikina hjá börnunum sínum en þeir mega ekki fara inn í sóttvarnahólfin þar sem þau gista, nema þeir séu fararstjórar. Sama fyrirkomulag á einnig við um matartímann.

„Þau geta fylgst með stelpunum en svo þurfa þau að yfirgefa svæðið,“ bætir Sigríður við.

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kom aldrei til greina að hætta við

Tvær vikur eru liðnar síðan Sigríður og félagar fengu að vita hvaða reglur áttu að gilda á mótinu en þær gilda fram í næstu viku. „Við vorum búin að bíða og vona hvort afléttingarnar yrðu ekki meiri en þær urðu. En það kom aldrei til greina að hætta við mótið. Það er svo mikil tilhlökkun hjá stelpunum að koma í mótið að við hefðum aldrei getað gert það,” greinir hún frá.

Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Alls taka 120 lið frá 34 félögum þátt í mótinu. Allt í allt verða þátttakendur um 1.200 og eru þá taldir með keppendur, þjálfarar og fararstjórar.

Sigríður kveðst fyrst og fremst vera ánægð með að mótið skuli vera haldið. „Við erum ánægð með að geta boðið stelpunum að koma hingað og spila leikina. Þetta snýst fyrst og fremst um fótboltann. Þær fá að keppa leikina en hitt er líka skemmtilegt.”

Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is