Ríkisstjórnin sögð svæfa stóru málin vegna ágreinings

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Arnþór

Ríkisstjórnin hefur lagt fram lista af málum sem þau hyggjast klára fyrir lok þingsins. Samningaviðræður um þinglok standa yfir á milli þingflokksformanna, en staða mála þykir heldur óvenjuleg þar sem ágreiningur um hvaða mál komast á dagskrá hefur að mestu verið á milli stjórnarflokka en ekki á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Þingi átti að ljúka á morgun en fyrir liggur að það muni standa eitthvað áfram, að minnsta kosti út vikuna.

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að mikil óeining sé innan ríkisstjórnarinnar og þau komi sér ekki saman um stór pólitísk mál. Slík mál hafi því flest verið tekin út af borðinu. Eftir standa mál sem ríkir samstaða um í flestum tilfellum.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, tekur undir að þetta sé óvenjuleg staða og að þingflokksformenn stjórnarandstöðu hafi til þessa lítið komist áfram í samningaviðræðum við stjórnarflokka þar sem þeir síðarnefndu hafi verið uppteknir af ágreiningi innbyrðis.

Stjórnarskrárfrumvarp ekki rætt

Stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur hefur ekki verið rætt á fundum þingflokksformanna. Gert var ráð fyrir að það yrði rætt á svokölluðum þingstubbi í ágúst en ekki er víst hvort verður af því. Það verður að minnsta kosti ekki rætt frekar á þinginu núna í vor.

Oddný segir að eins og staðan sé núna telji hún útilokað að stjórnarskrármálið fái áframhaldandi afgreiðslu á þingi fyrir þinglok. Hún leggur þó áherslu á að enn sé ekki búið að ljúka samningum. Samfylkingin hefur ekki sett sig upp á móti frumvarpinu heldur séu það deilur innan ríkisstjórnarinnar sem stöðvi málið. 

Mörg mál blásin af

Málin sem tekin hafa verið út af borðinu af ríkisstjórninni eru mörg.

Rammaáætlun verður ekki tekin til afgreiðslu, né heldur mál um vindorku eða fiskveiðistjórnun. Þá verður frumvarp um hálendisþjóðgarð ekki afgreitt. Það var lagt fram af umhverfisráðherra og var hálendisþjóðgarður meðal þess sem kveðið var á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Frumvarp um fjarskiptalög verður ekki tekið fyrir á þessu kjörtímabili. Frumvarp um mannanöfn lagt fram af dómsmálaráðherra verður ekki rætt, né heldur lög um leigubíla eða lög um afglæpavæðingu fíkniefna sem var lagt fram af heilbrigðisráðherra.

Taka fyrir mál sem víðtæk sátt er um 

Meðal þeirra mála sem ríkisstjórnin ætlar að taka fyrir á síðustu dögum þingsins eru víðtækar breytingar félags- og barnamálaráðherra á barnaverndarkerfinu sem breið sátt er um. Frumvarp um breytingu á lögum um innflytjendur verður líka rætt en talið er að þingmenn Miðflokks muni reyna að standa í vegi fyrir samþykkt þeirrra.

Þá hefur frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga verið á dagskrá þingsins í dag. Ekki verður gerð krafa um lágmarksíbúafjölda heldur verður frekar horft á getu sveitarfélaga til að sinna lögbundinni þjónustu.

Önnur mál sem ríkisstjórnin vill taka fyrir eru frumvarp um fjáraukalög, kosningalög, lög um þjóðkirkjuna, tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, lög um fjöleignahús, breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld, frumvörp umhverfisráðherra um markmið um kolefnishlutleysi og umhverfismat og frumvarp heilbrigðisráðherra um iðnaðarhamp.

mbl.is