Beint: Gríman afhent

Birna Hafstein, forseti Sviðslistasambands Íslands.
Birna Hafstein, forseti Sviðslistasambands Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með sviðslistafólki á Íslandi takast á við nýjar og áður óþekktar áskoranir heimsfaraldurs í sínum störfum á því leikári sem nú er að líða,“ sagði Birna Hafstein, forseti Sviðslistasambands Íslands, í ávarpi sínu í Tjarnarbíói fyrir stundu, en þar fer nú fram afhending Grímunnar, Íslensku sviðslistaverðlaunanna. 

 „Með góðri samvinnu og af þrautseigju og æðruleysi nýtti sviðslistafólk hvert tækifæri til að miðla list sinni með einum eða öðrum hætti til áhorfenda. Þessi mikla sköpunargleði og – kraftur gerði landsmönnum lífið vafalaust léttara síðastliðið ár og fyrir það bera að þakka.“

Sviðslistamiðstöðin verður gátt út í heim

Birna benti á annað sem vel hefði verið gert á árinu, því eftir margra ára baráttu hefur stofnun Sviðslistamiðstöðvar Íslands loks verið staðfest og fyrsta stjórn hennar skipuð í samstarfi Sviðslistasambands Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytis og fleiri hagaðila í greininni. 

„Þetta er mikið ánægjuefni og stór áfangi fyrir sviðslistir á Íslandi. Verkefni Sviðslistamiðstöðvar Íslands verða meðal annars að styrkja innviði og umgjörð sviðslista hér heima við en ekki síður er miðstöðinni ætlað að vera gátt út í heim og með það markmið að flytja út sviðslistir frá Íslandi.

Með þessu verður staða sviðslistafólks frá Íslandi styrkt á alþjóðavettvangi enda góð ástæða til. Sviðslistaumhverfið á Íslandi er bæði framsækið og skapandi og við getum státað af ótrúlega flottu og hæfileikaríku listafólki sem á fullt erindi út um allan í heim.“

Stóráfangi fyrir dansheiminn

Loks flutti Birna sjóðheitar fréttir úr sviðslistageiranum, því fyrr í dag skrifaði Félag íslenskra leikara og sviðslistafólks undir kjarasamning við ríkið vegna danshöfunda hjá Íslenska dansflokknum.

„Þetta er tímamóta samningur en þetta er í fyrsta skipti í sögu sviðslista á Íslandi þar sem danshöfundar eiga sinn eigin kjarasamning og standa nú loks jafnfætis öðrum listrænum stjórnendum í sviðslistum á Íslandi. Þetta er stóráfangi fyrir dansheiminn og ég vil þakka mennta og menningarmálaráðherra Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem og öllum öðrum sem að þessu komu. Þið vitið hver þið eruð,“ sagði Birna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert