Covid-skyndipróf í 3 mín. akstri frá Leifsstöð

Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, Ingvar Eyfjörð hjá Aðaltorgi og …
Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, Ingvar Eyfjörð hjá Aðaltorgi og Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, fyrir utan nýju skimunarstöðina í húsnæði Aðaltorgs þar sem áður var gistiheimilið Alex í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Aðsend

Ný skimunarstöð fyrir Covid-19-skyndipróf hefur verið opnuð í húsnæði Aðaltorgs í Reykjanesbæ, í aðeins 3 mínútna akstursfjarlægð frá Leifsstöð.

Þetta segir í tilkynningu frá Öryggismiðstöðinni.

Skimunarstöðin er einkum ætluð ferðamönnum sem þurfa á niðurstöðu úr Covid-19-prófi að halda vegna ferðalaga sinna. Um er að ræða Antigen-próf frá Siemens en þau skila niðurstöðu á um 15 mínútum með um 99% nákvæmni. Niðurstaða er send með QR-kóða í tölvupósti um leið og hún liggur fyrir en Öryggismiðstöðin sér um alla framkvæmd á skimununum í samstarfi við rannsóknarstofuna Sameind.

Öryggismiðstöðin hefur hingað til starfað mikið við tökur á hefðbundnum Covid-19 PCR-strokuprófum meðal annars í flugstöðinni við sýnatöku hjá komufarþegum.

Hægt er að bóka tíma í Covid-19-skyndipróf með slóðinni www.testcovid.is.

mbl.is