Hraunið „labbar yfir landslagið“

Ekkert lát er á gosinu í Geldingadölum.
Ekkert lát er á gosinu í Geldingadölum. mbl.is/Árni Sæberg

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir ekkert benda til þess að gosinu í Geldingadölum sé að ljúka þó hið sýnilega hraunflæði sé að breytast. Hraunið sé nú orðið að helluhrauni sem einangri mun betur og geri hrauninu kleift að ferðast lengri vegalengdir hraðar.

Ásýnd eldgossins hefur breytt töluvert á síðustu dögum en Þorvaldur segir það mega rekja til þess að gasbólur hafi verið að rísa hratt upp í gegnum súluna og valdið óróa. Einhverra hluta vegna hafi núna bæði gasbólumyndunin og ris þeirra jafnast út og því renni hraunið jafnt úr gígnum.

Líklegt að hraunpollurinn hafi risið

Hann segir líklegt að hraunpollurinn sjálfur hafi risið og þess vegna leki hraunið nú út úr gígnum í stað þess að springa upp úr honum enda bendi fátt til þess að skörðin hafi lækkað og valdið breytingunni þannig.

„Það sem við erum að sjá núna í gígnum er í raun bara yfirfall og það er greinilega ekki meginaðfærsluæðin út í hraunbreiðuna sjálfa, hún er þarna undir. Það er líka komið þak yfir hraunána. Hún er undir skorpunni núna og það er fullt af flæði þar,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem er mjög athyglisvert er að það sem við sjáum í gígnum hefur engin áhrif á hraunflæðið. Hraunáin hækkar hvorki né lækkar í samræmi við það sem er að sjá á gígnum. Það er greinilega eitthvað stærra þarna undir sem viðheldur flæðinu út í hraunána. Við sjáum í raun bara yfirfallið.“

Gígurinn segi lítið um stöðu hraunflæðis

Þess vegna er erfitt að horfa á þær breytingar sem við sjáum á gígnum sjálfum og setja samansem merki á milli þeirra og hraunflæðisins í heild.

„Það er ekkert sem bendir til þess að gosið sé að hægja á sér, það gæti vel verið að það hafi gert það en ekkert í augnablikinu sem segir okkur að það hafi gerst,“ segir Þorvaldur. 

Varnargörðum var komið fyrir til þess að hamla för gossins.
Varnargörðum var komið fyrir til þess að hamla för gossins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérðu þá fram á að hraunið muni renna lengri vegalengdir og hraðar?

„Því betur einangrað sem kerfið er, því heitari helst kvikan og þá á hún auðveldara með að komast lengra.“

Svo kvikan er á leiðinni út í sjó eins og staðan er akkúrat núna?

„Já hún fer þangað á endanum ef gosið heldur áfram. Við stoppum það ekkert af. Það gæti þó tekið mánuði ef ekki ár að komast alla leið þangað. Storkið hraun er ofsalega góður einangrari. Skorpan á hrauninu er ekki nema tíu sentímetra þykk, þá eru tíu sentímetrar niður í bráðið hraun sem er 1200 gráðu heitt en yfirborðið er ekki nema 70 til 80 gráður. Glóandi hraun er töluvert hægara yfirferðar því þá er hitageislun sem tapar varmanum miklu hraðar og veldur því að hraunið stífnar og stöðvar fyrr.“

Flutningskerfið undir skorpunni

„Núna er gosið komið í flutningskerfi, það heldur bara áfram með jöfnum hraða. Svona helluhraun labbar yfir landslagið. Það er ekkert að hlaupa það bara labbar yfir allt, tekur kannski stærri skref stundum. Góð dæmi um hvað þessi einangrun skiptir máli er að öll lengstu hraun jarðar eru helluhraun. Lengsta hraun Íslands, Þjórsárhraun, er til dæmis helluhraun.“ 

Glóandi hraun fer hægar yfir þar sem varmatapið gerir hraunið …
Glóandi hraun fer hægar yfir þar sem varmatapið gerir hraunið sífara. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert