„Þykir vænt um þetta“

Hallveig Thorlacius ásamt dóttur sinni Helgu Arnalds. Myndin var tekin …
Hallveig Thorlacius ásamt dóttur sinni Helgu Arnalds. Myndin var tekin 2008. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég átti svo sannarlega ekki von á þessari viðurkenningu, en mér þykir vænt um þetta. Mér finnst það skemmtilegur siður að senda svona þakklætisvott til þeirra sem staðið hafa vaktina,“ segir Hallveig Thorlacius sem fyrir stundu hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands 2021. 

Hallveig hefur um áratuga skeið starfað í þágu íslenskrar barnamenningar og leikhúslífs. „Hugsjón mín hefur ætíð verið að börnum sé sinnt og þau fái það sem þau þurfa. Eitt af því sem börn þurfa og þrá er að við fullorðna fólkið sjáum þau og hlustum á þau. Börn eru svo oft skilgreind sem hluta af hóp, hvort sem það er bekkurinn þeirra eða íþróttaliðið, en þau þurfa á því að halda að vera séð sem einstaklingar líka,“ segir Hallveig og leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að aðstandendur barna hafi sem bestar aðstæður til að sinna börnum sínum. „Öll viljum við auðvitað börnum okkar það besta, en við höfum ekki öll aðstæður, tíma og fjárhagslegt svigrúm til þess.“

Ósýnilega tröllastelpan víðförlust

Í þakkarræðunni rifjaði Hallveig upp ævintýri sín með ferðaleikhúsinu Sögusvuntuna sem hún stofnaði 1984. 

Ég veit ekki hversu marga hringi ég fór kringum landið með Sögusvuntuna, oftast alein í skódanum, og var orðin býsna flink að skipta um dekk við erfiðar aðstæður. Það kom sér líka vel að kunna slatta af tungumálum því áður en varði var þessi svunta komin á fleygiferð út um allt. Hún var mörg ár á sveimi milli bókasafna á Norðurlöndunum, henni var boðið til Bretlands, Kanada og Bandaríkjanna og svo út um allt Rússland, allt austur í Síberíu.

Sögusvuntan lék alltaf fyrir áhorfendur sína á þeirra eigin tungumáli. Við Helga dóttir mín sem lék stundum með mér í Sögusvuntunni unnum meira að segja það afrek að leika Músina Rúsínu á færeysku þótt við kynnum ekkert annað í því tungumáli en þessa sögu um litla mús,“ sagði Hallveig og vísarði þar til Helgu Arnalds myndlistar- og brúðulistakonu. 

Hallveig rifjaði upp að víðförlsta sýning Sögusvuntunnar hafi verið Minnsta tröll í heimi sem fjallar um ósýnilega tröllastelpu sem áhorfendur hafa margsinnis þurft að bjarga frá bráðum bana. „Það var til dæmis alltaf einhver sem var til í að fela hana í eyranu á sér þangað til hættan var liðin hjá.“

Gott að geta hjálpað börnum

Hallveig rifjaði upp að hún hefði komist að ýmsu um börn sem áhorfendur á þeim 50 árum sem hún hafi sýnt þeim brúðusýningar. „Það er hægt að koma ýmsu góðu til leiðar gegnum leikhús. Gott dæmi um það er leiksýningin Krakkarnir í hverfinu, fræðslusýning um ofbeldi gegn börnum, sem við Helga Arnalds ýttum af stað fyrir 15 árum. Seinna bættust þau Sólveig Guðmundsdóttir og Arnar Ingvarsson í hópinn. Það er nú boðið upp á þessa sýningu fyrir öll sjö ára börn í landinu á hverju ári á vegum Velferðarráðuneytisins og Barnaverndarstofu.

„Ég ætla að leyfa ykkur að heyra hvað starfsmaður barnaverndar úti á landi hafði að segja: „Leiksýningarnar eru stórkostlegt verkfæri til að hjálpa börnum að segja frá ofbeldisfullri hegðun sem þau hafa orðið fyrir. Sýningarnar eru ekki síður mikilvægar fyrir barnaverndarstarfsmenn sem með viðveru sinni gefst tækifæri til að koma umræddum börnum til hjálpar á skjótan og milliliðalausan hátt.“

Það er auðvitað sannkallað hryggðarefni að verða vitni að sumu sem börn þurfa að ganga í gegnum en hitt stendur þó upp úr hversu dýrmætt það er að hægt sé að hjálpa þó ekki sé nema einu barni sem er að glíma í einrúmi við eitthvað vont,“ sagði Hallveig í ræðu sinni. 

Viðtal við Hallveigu má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, föstudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert