Skemmdarverk á myndlistasýningu í Breiðholti

Rýmið áður en skemmdarverkið var framið. Um er að ræða …
Rýmið áður en skemmdarverkið var framið. Um er að ræða verk sem hylur alla veggi rýmisins. Ljósmynd/Aðsend

Skemmdarverk hafa verið framin á myndlistasýningu á Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Sigga Björg, listamaðurinn sem stendur fyrir sýningunni, segist vonsvikin en aðallega hissa.

Listasýningin sem um ræðir opnaði síðasta laugardag og nefnist „Stanslaus titringur“, er sumarsýning Siggu Bjargar og átti að standa til 13. ágúst. Nú er hins vegar hvert einasta verk sýningarinnar ónýtt og fékk því sýningin að standa óáreitt í aðeins fimm daga.

Verkin á sýningunni eru myndlistaverk og eru máluð á veggi salarins en ekki á striga eða pappír og því er sýningin hönnuð fyrir rýmið sérstaklega. „Ég er búin að mála þarna allan salinn, gerði öll verkin beint á vegginn og er því búin að eyða mjög miklum tíma þarna í Gerðubergi,“ segir Sigga.

Hér má sjá eitt verkanna fyrir og eftir verknaðinn.
Hér má sjá eitt verkanna fyrir og eftir verknaðinn. Ljósmynd/Aðsend

„Mér finnst þetta rosa skrítið, rosa leiðinlegt,“ segir Sigga en verknaðurinn, sem átti sér stað milli kl. 15 og 16 í dag, náðist á upptöku og er nú á borði lögreglu.

„Viðkomandi fer þarna með appelsínugult lakk-sprey og spreyjar yfir öll verkin. Svona svolítið eins kennari að stroka út af töflu. Strikar yfir myndirnar,“ segir Sigga og bætir við að þar sé eflaust um að ræða ýktustu viðbrögð við sýningu sem hún hefur fengið hingað til. „Þetta hefur að minnsta kosti ekki verið honum að skapi þannig að hann hefur bara ákveðið að taka bara málin í sínar hendur. Strika bara yfir þetta,“ segir Sigga á aðeins léttari nótum.

Annað skemmdarverk. Unnar voru skemmdir á öllum verkum sýningarinnar.
Annað skemmdarverk. Unnar voru skemmdir á öllum verkum sýningarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Óvíst með framhaldið

Sjálf hefur Sigga ekki náð að sjá skemmdarverkin en hún ætlar í Gerðuberg á morgun. Ég held að maður sé bara í smá sjokki, ég á eftir að fara þarna, hef bara séð myndir,“ segir hún og heldur áfram: „Þetta var bara byrjunin. Ætluðum að halda nokkra viðburði þarna inni í sumar en það er óvíst hvort það verði af því,“ segir hún, en til stóð útgáfa á plakötum upp úr sýningunni. „Ætli við þurfum ekki að meta stöðuna betur á morgun þegar ég fer og skoða þetta,“ segir hún.

Spurð um hvenær hún hóf undirbúning sýningarinnar segir hún að hann hafi hafist á síðasta ári. „Ég byrjaði að undirbúa teikningar fyrir þessa sýningu í lok síðasta árs, vann svo í teikningum fram í miðjan maí og set svo upp sýninguna,“ segir hún. Uppsetning verksins í Gerðubergi hafi síðan verið tvær vikur þar sem hún eyddi öllum sínum tíma við að mála verkin á veggina.

„Það voru jákvæð og góð samskipti við gesti hússins sem eru margir fastagestir og mikið verið að spjalla meðan ég setti þetta á veggina og þess vegna kemur þetta mér á óvart. En einhver þarna inni á milli hefur ekki verið sáttur,“ segir hún að lokum.

Vefsíðu Siggu Bjargar með mörgum af hennar verkum má finna hér.

mbl.is