Stjórnmálaflokkar stoltir styrktaraðilar Facebook

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

Flokkur fólksins og Samfylkingin eru þeir flokkar sem eyða mestu í auglýsingar á Facebook, samkvæmt nýrri upplýsingasíðu sem Píratar hafa sett upp.

Píratar hafa sett upp upplýsingasíðu þar sem hægt er að sjá hversu miklum fjármunum stjórnmálaflokkarnir verja í Facebook auglýsingar. Á listanum má sjá alla 8 þingflokkana auk Sósíalistaflokksins, sem á þó ekki fulltrúa á Alþingi. Samanlagt eyddu flokkarnir tæpum 3.750.000 krónum í Facebook auglýsingar á síðustu 90 dögum.

Á síðunni er að finna upplýsingar um þessi útgjöld flokkanna, til erlenda miðilsins Facebook, síðastliðinn sólarhring, viku, 30 daga og síðustu 90 daga.

Ef litið er til síðustu 90 daga má sjá að útgjöld Flokks fólksins til Facebook voru langsamlega hæst, 1,4 milljónir íslenskra króna. Samfylkingin fylgir þar á eftir með útgjöld sem nema 832.700 krónum og þá Sjálfstæðisflokkurinn í þriðja sæti með kostnað upp á 409.800 krónur.

Forystan er með sambærilegum hætti ef litið er til síðasta sólarhrings eða síðustu viku en ef skoðaðir eru síðustu 30 dagar þá eyddi Samfylkingin mestu á því tímabili.

Þrátt fyrir að hafa lagt svo mikla áherslu á auglýsingar er ekki að sjá aukningu á fylgi flokkanna tveggja sem skiptast á forystu.

Fyrir viku birtust niðurstöður úr nýrri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna. samkvæmt henni mældist fylgi Flokks fólksins aðeins 2,8%. Fylgi Samfylkingarinnar mældist 10,9% en það er þó lægra en í síðustu könnun þar sem það mældist 12,1%. 

Þessar upplýsingar sem píratar eru búnir að taka saman eru fengnar af annarri  upplýsingasíðu sem haldið er úti af Facebook. Þar má sjá alla þá sem hafa keypt auglýsingar, ekki bara stjórnmálaflokkana. Þar eru ofarlega auglýsingasíður frambjóðenda í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert